Niðurstöður rannsókna á þróun máltöku hjá enskumælandi börnum hafa verið yfirfærðar á önnur tungumál. Tungumál hafa þó sín sérkenni og því er þörf á sérstökum rannsóknum á hverju tungumáli fyrir sig. Kerfisbundnar rannsóknir á máltöku barna sem hafa íslensku að móðurmáli hófust í kringum 1980.
Rannsóknir á þróun íslensku sem annars máls hjá börnum eru á frumstigi. Tvær nýlegar rannsóknir hafa verið gerðar á kunnátta nemenda sem læra íslensku sem annað mál í grunnskóla.
Samkvæmt rannsókn sem Sigríður Ólafsdóttir (2009) gerði á orðaforða barna með íslensku sem annað mál á Íslandi standa nemendur illa að vígi í orðaforða. Niðurstöður sýna að frá 7-9 ára urðu engar framfarir í orðaforðaþekkingu nemenda.
Þriggja ára langsniðsrannsókn þar sem 39 nemendur með íslensku sem annað mál tóku þátt sýnir litlar sem engar marktækar framfarir í íslensku hjá nemendum á þessum þremur árum. Nánari úrvinnsla er í gangi og niðurstöður birtast í grein innan árs. (Elín Þöll Þórðardóttir og Anna Guðrún Júlíusdóttir, 2009).
Íslenska er mikið beygingarmál og að því leyti ólík móðurmálum margra erlendra nemenda sem læra íslensku. Því er nauðsynlegt að leggja sérstaka áherslu á fallbeygingar við kennslu tungunnar.