Lög og reglugerðir

Íslensk málstefna  
Mennta- og menningarmálaráðuneyti 2009
Tillögur íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu samþykktar á Alþingi 12. mars 2009

Þar stendur:
Fjölbreyttur nemendahópur

Leik-, grunn- og framhaldsskólakennarar sinna fjölbreyttum nemendahópi í starfi sínu, meðal annars ört vaxandi fjölda barna og unglinga af erlendum uppruna. Rannsóknir sýna að þessir nemendur eiga undir högg að sækja í skólakerfinu og afar fáir nemendur af erlendum uppruna ljúka til dæmis stúdentsprófi. Þessir nemendur þurfa oft meiri og annars konar kennslu og málörvun en börn sem hafa íslensku að móðurmáli. Þessi nýi nemendahópur kallar á aukna og breytta menntun íslenskukennara sem þurfa nú bæði að hafa sérþekkingu á íslensku máli og bókmenntum og vera færir um að kenna íslensku sem annað mál. Til að geta sinnt þörfum þessa nemendahóps þarf kennari meðal annars að hafa sérfræðiþekkingu á íslenskri málfræði, kennslufræði íslensku sem annars máls og á málvísindum eða almennri tungumálakennslu.

Nemendum, sem hafa annað móðurmál en íslensku, hefur fjölgað mjög í íslensku skólakerfi undanfarin ár. Íslenskukennarar þurfa nú bæði að vera færir um að kenna íslensku sem móðurmál og sem annað mál, auk þess sem þeir þurfa að kunna að bregðast við nemendum sem eru börn íslenskra foreldra en hafa alist upp að mestum hluta  erlendis.

Lög um grunnskóla

Þar stendur:
16. gr. Móttökuáætlun og nemendur með annað móðurmál en íslensku.
Kennsla í grunnskólum skal fara fram á íslensku. Heimilt er að nám fari fram á öðrum tungumálum en íslensku þegar það leiðir af eðli máls eða aðalnámskrá.
Grunnskólar taka á móti nemendum sem eru að hefja skólagöngu, eru að skipta um skóla eða hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Foreldrum skulu á þeim tímamótum veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá rétti þeirra til túlkaþjónustu.

Móttökuáætlun vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Tryggja skal að þessir nemendur og foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólastarf.
Nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Með kennslunni er stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda og að þeir geti stundað nám í grunnskólum og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi. Grunnskólum er heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli.

Í september 2011/AGJ

CC-LEYFI

Heimildir
Lög um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum. Þingskjal 1772, 139. löggjafarþing 747. mál: grunnskólar (bættur réttur nemenda o.fl.). Lög nr. 91 23. júní 2011. Lög og reglugerðir. Lagasafn Alþingis. Sótt af: http://www.menntamalaraduneyti.is/log-og-reglugerdir/
Tillögur íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu samþykktar á Alþingi 12. mars 2009. Íslensk málstefna. Íslenska til alls. (2009). Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.