Menningarmót til Prag

Verkefnisstjóri Menningarmóta fór nýlega ásamt samstarfskonu til Prag að kynna fjölmenningarstarf Borgarbókasafnsins – með áherslu á verkefnið “Menningarmót – Fljúgandi teppi”. Frumkvæði að þessari heimsókn átti tékkneska stofnunin Inbazé, sjálfstæð stofnun sem sinnir málefnum innflytjenda í Prag. Inbazé, í félagi við borgarbókasafnið í Prag, sótti um styrk til að þróa þjónustu sína áfram með fjölmenningarleg verkefni Borgarbókasafnsins sem fyrirmynd.

Starfsmenn Inbazé, borgarbókasafnsins í Prag, kennarar og félagsráðgjafar sátu kynninguna. Einn hluti af kynningunni var Menningarmót, eins og þau hafa verið haldin á vegum Borgarbókasafns í fjölmörgum leik-, grunn- og framhaldsskólum. Menningarmótið vakti mikla athygli og ánægju meðal gestanna, enda er það einfalt í framkvæmd og í raun hægt að slá upp menningarmóti hvar sem er án mikils undirbúnings eða fyrirvara. Hugmyndafræði menningarmótanna felst í því að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima þátttakenda, sem þurfa ekki endilega að tengjast þjóðerni eða föðurlandi. Sjá frétt um heimsóknina hér.