Heimasíðan formlega opnuð í Borgarbókasafni 26.2

image image

Við þökkum allar góðar kveðjur í tilefni þess að menningarmot.is fór á flug. Sérstakar þakkir fá Fríða B. Jónsdóttir og Helga Ágústsdóttir fyrir frábært samstarf við gerð vefsins.

Hér má lesa frétt sem birtist á vefsíðu Reykjavíkurborgar:

“Vefsíða um verkefnið Menningarmót – Fljúgandi teppi var opnuð með viðhöfn í Borgarbókasafninu 26. febrúar. Háteigsskóli var við það tilefni útnefndur menningarmóts-skóli. Kristín R. Vilhjálmsdóttir, kennari og verkefnstjóri fjölmenningar, hefur sett saman umfangsmikið vefsetur um verkefnið Menningarmót þar sem finna má margvíslegar upplýsingar um hvernig nota má þá vinnuaðferð í kennslu og skólastarfi.

 

 

Nokkrir skólar hafa innleitt menningarmót sem fastan lið í fagstarfinu, s.s. Háteigsskóli, sem var útnefndur menningarmótsskóli þegar vefsíðan var opnuð.

Meðal markmiða menningarmóta er að þátttakendur geri sér ljóst að fjölbreytt menning, áhugasvið og ólík tungumál mynda mikilvægt menningarlegt litróf í samfélaginu öllu. Mótsgestir veita öðrum hlutdeild í þeirri gleði og stolti sem fylgir því að miðla áhugamálum sínum og menningu á skapandi hátt. Við opnun vefsíðunnar var einmitt efnt til menningarmóts í Borgarbókasafninu þar sem fólk deildi áhugamálum sínum og lífsreynslu með ýmsu móti.

Við opnunina flutti Kristín verkefnastjóri ávarp og skýrði tilurð þessarar skemmtilegu kennsluaðferðar, s.s. í tungumálakennslu og samþættingu námsgreina. Oddný Sturludóttir kynnti háskólaverkefni sitt um fjölmenningarlega kennsluhætti þar sem vísað er til reynslu af menningarmótum í Reykjavík og Fríða Bjarney Jónsdóttir gerði grein fyrir stefnu Reykjavíkurborgar um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf, Heimurinn er hér. 

Myndirnar eru frá opnun heimasíðunnar.