Bakgrunnur
Menningarmótsverkefnið, sem er líka þekkt undir nafninu “Fljúgandi teppi”, er þverfagleg aðferð í starfi með börnum og fullorðnum, hugsuð til þess að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima þátttakenda. Kristín R. Vilhjálmsdóttir, sem er kennari og menningar- og tungumálamiðlari er hugmyndasmiður verkefnisins sem varð til í kennslustofu hennar í Danmörku árið 2000. Hún hefur mótað og notað Menningarmótin með góðum árangri í kennslu á Íslandi síðan 2008 og leiðbeint við að innleiða verkefnið í fjölmörgum skólum hérlendis og í Danmörku. Kristín var verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafninu febrúar 2008 – febrúar 2020 og á því tímabili var verkefnið meðal annars hluti af starfi safnsins.
Kristín er núna sjálfstætt starfandi og hægt er að panta kynningu á verkefninu og fá handleiðslu til að innleiða Menningarmót með því að senda tölvupóst á netfangið: kristinvil@gmail.com
Útfærsla
Menningarmót má útfæra með mörgum námsgreinum og námssviðum og oft tengjast þau vinnu með sjálfsmynd barna í leikskólum, samfélagsfræði, íslensku-, tónlistar – og leiklistarkennslu í grunnskólum, lífsleikni í grunn – og framhaldsskólum og íslensku sem öðru máli á fullorðinsstigi. Verkefnið hentar einnig vel í hagnýtri tungumálakennslu. Tilfinningar, tjáning og ímyndunarafl er virkjað á uppbyggjandi hátt.
Á Menningarmótum fá þátttakendur tækifæri til að kynna sína persónulegu menningu í hvetjandi umhverfi. Ekki er endilega um að ræða þjóðarmenningu eða upprunamenningu einstaklinga heldur er markmiðið að hver og einn varpi ljósi á það sem skiptir hann mestu máli eða vekur áhuga hans. Á hverju Menningarmóti eru allir í hópnum bæði þátttakendur og áhorfendur.
Menningarmótsferlið er byggt upp sem þrískipt námsferli í anda könnunaraðferðarinnar.
Lykilatriði við útfærslu Menningarmóts er að litið sé á hugtakið fjölmenningu í víðum skilningi – eitthvað sem varðar alla í samfélaginu, ekki einungis ákveðna hópa. Vefurinn www.menningarmot.is varðveitir þessi gildi.
Menningarmót og Heimsmarkmið sameinuðuþjóðanna
Vefurinn er unnin í samstarfi við Skóla – og frístundasvið, Fríðu B. Jónsdóttur, verkefnastjóra fjölmenningar og Helgu Ágústsdóttur, kennsluráðgjafa hjá Reykjavíkurborg.
Í allri umfjöllun um verkefnið og framkvæmd skal vísa til þessarar heimasíðu.