Ráðstefnan Fræði og fjölmenning 2016 fer fram í Háskóla Íslands laugardaginn 6. febrúar frá kl. 10-14.30. Ráðstefnunni er ætlað að miðla og byggja upp frekari þekkingu á sviði fjölmenningar. Á ráðstefnunni verður meðal annars kynnning á verkefninu “Menningarmót”:
Titill erindis: “Þar sem margbreytileikinn lifir, Menningarmót í leik-, grunn- og framhaldsskólum” Lengd erindis: 15 mínútur
Fyrirlesari: Kristín R. Vilhjálmsdóttir, kennari, verkefnastjóri fjölmenninngar á Borgarbókasafni Reykjavíkur og MA nemi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.
Ágrip: Menningarmót, sem er líka þekkt undir nafninu “Fljúgandi teppi”, er þverfagleg kennsluaðferð sem hefur það að markmiði að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima þátttakenda. Menningarmót má útfæra með mörgum námsgreinum og námssviðum og oft tengjast þau vinnu með sjálfsmynd barna, skapandi greinar, lífsleikni, íslensku – og tungumálakennslu. Lykilatriði við útfærslu Menningarmóts er að litið sé á hugtakið fjölmenningu í víðum skilningi – eitthvað sem varðar alla, ekki einungis ákveðna hópa. Áhersla er lögð á að hver og einn kynni sín áhugamál og menningu, sem tengist ekki endilega þjóðmenningu. Menningarmótin hafa verið notuð með góðum árangri í kennslu, bæði í Danmörku og á Íslandi undanfarin 12-15 ár og eru sjö skólar í Reykjavík orðnir formlegir „Menningarmótsskólar“. Höfundur verkefnisins mun í erindinu fara yfir helstu atriði þess og framkvæmd og kynna til sögunnar kennsluleiðbeiningar sem eru að finna á heimasíðunni www.menningarmot.is