Athyglisverð rannsókn í Svíþjóð

.

Vönduð rannsókn var nýlega gerð í Svíþjóð þar sem tveir sænskumælandi hópar voru bornir saman.

.

.

  • Annars vegar hópur af erlendum uppruna sem þótti hafa náð óvenjulega góðum tökum á sænsku.
  • Hins vegar Svíar sem höfðu sænsku að móðurmáli.


Fram kom að ákveðnir þættir skilja að færni annars máls nemenda sem lærðu sænsku snemma og þeirra sem lærðu málið seint á ævinni. Mestur munur var á færni í framburði og málfræði.

  • Hjá þeim sem höfðu lært málið snemma var framburður góður og skilningur á við innfædda algengur en þekking (innsæi) í málfræði jafnvel slakari en hjá þeim sem lærðu málið síðar.
  • Nemendur sem höfðu lært málið seint á ævinni sýndu hið gagnstæða. Þeir náðu frekar færni á við innfædda í formlegum málfræðiatriðum en síður í hljóðfræðilegum þáttum.


Marktækur munur var á hópunum í skilningi, talanda og beitingu orðatiltækja sem er líklega ástæðan fyrir því að sú goðsögn er á kreiki að best sé að læra annað mál snemma.


Báðir hóparnir sýndu sömu færni í setningaformfræði (morphosyntax) og spakmælum en sú færni var langt frá því að vera sambærileg við Svía með sænsku að móðurmáli.


Í ljós kom að meirihluti nemendanna sem byrjuðu að læra málið snemma höfðu náð talmáli á við innfædda en aðeins nokkrir þeirra sem lærðu málið seint. Aðeins fáir af þeim sem hófu máltöku snemma og enginn sem byrjaði seint sýndu raunverulega tungumálahæfni á við innfædda þegar árangur þeirra var skoðaður í smáatriðum.

Nútíma rannsóknir benda til þess að það sé mun sjaldgæfara en talið hefur verið, að nemendur sem læra annað mál mjög snemma nái auðveldlega, sjálfkrafa og óhjákvæmilega nærri jafngóðum árangri og innfæddir.

Niðurstöður rannsóknarinnar styðja það sem fjöldi annarra rannsókna hefur sýnt, að goðsögnin um að “því yngri því betra” sé alröng. Þeir nemendur sem hefja nám í seinna máli í bernsku læra það alls ekki á sama hátt og móðurmálið og ná ekki sömu færni í því.

Í ágúst 2011/AGJ

CC-LEYFI
Heimildir

Abrahamsson, N., Hyltenstam, K. (2009). Age of Onset and Nativelikeness in a Second Language: Listener Perception Versus Linguistic Scrutiny. Language Learning. 59, 2. 249–306.