Nordlys-verkefnið er nýtt á Tungumálatorginu. Verkefnið er sett fram á dönsku og íslensku og hugsað fyrir netsamvinnu nemenda í 2 – 3 löndum. Því er ætlað að efla ritun, málvitund og orðaforða og standa vonir til að verkefnið vekji athygli nemenda á hve stór hluti undirstöðuorðaforða norrænu málanna er sameiginlegur.
Nordlys býður upp á margs konar samvinnumöguleika, t.d. milli nemenda á Íslandi og Færeyjum; Íslandi, Færeyjum og Vestur-Noregi, auk samvinnu milli nemenda í norsku, sænsku og dönsku
Í Drivkraft er lögð áhersla á tvær gerðir prójekta þar sem ætlast er til að nemendur beiti hæfni sinni í tungumálinu til að skapa sér nýja þekkingu með því að nota viðeigandi aðferðir og ferla.
- Prójekt um ákveðin efni þar sem nemandinn ákveður sjónarhorn, verklag og hvernig afraksturinn er kynntur.
- Sjálfstæð rannsóknarverkefni þar sem nemandinn á eigin forsendum finnur svör við spurningu sem hann/hún er upptekin(n) af.
Þemalýsingunum á vefnum Norden er ætlað að draga fram það sameiginlega í norrænni menningararfleifð og sýna fram á hve nátengt líf á Norðurlöndum er.
Áhersla er lögð á tungumálin og skyldleika þeirra í verkefnum sem tengjast menningarþáttum sem sameiginlegar eru norrænu þjóðunum.
Tungumálunum er stillt upp hlið við hlið og hægt er að lesa sama textann á íslensku, dönsku, norsku, sænsku og færeysku, bera þá saman, geta sér til og hafa gaman af því að geta lesið mörg tungumál.