Formáli

Þemalýsingarnar á vefnum Norden eiga rætur í verkefni sem styrkt var af Nordisk Ministerråd árið 1994 til að draga fram það sameiginlega í norrænni menningararfleifð og sýna fram á hve nátengt líf á Norðurlöndum er.

Í vefútgáfunni 2012 er lögð áhersla á tungumálin, skyldleika þeirra og þá menningarþætti sem tengja norrænu þjóðirnar. Þeim er stillt upp hlið við hlið og hægt er að lesa sama textann á íslensku, dönsku, norsku, sænsku og færeysku og njóta þess að sjá svart á hvítu að ef maður er bærilega fleygur í íslensku og öðru Norðurlandamáli standa dyrnar opnar að hinum þremur, hver sem þau eru.

Íslenskir skólar njóta í mörgu góðs af norrænni samvinnu. Nefna má styrki til nemendaskipta og skólasamskipta af ýmsu tagi og geta verkefnin nýst í samstarfsverkefnum sem uppspretta hugmynda, hvort sem er á grunn- eða framhaldsskólastigi. Hvert verkefni byrjar á nemandanum sjálfum og nánasta umhverfi hans. Sviðið er síðan víkkað út þar til landið og síðan Norðurlönd öll eru komin inn í myndina. Byrjað er á þemum sem snerta mest unglinginn sjálfan og síðan farið inn á svið sem liggja fjær. (Unglingamenning, Daglegt líf,. . .)

Norden vefsvæðið er unnið fyrir styrk frá NORDPLUS.

Njótið og notið að vild.

Brynhildur Anna Ragnarsdóttir

Þórhildur Oddsdóttir

Björk Erlendsdóttir

Elín Nolsöe Gerthardsdóttir

Erika Frodell

Gry Ek Gunnarsson