Daglegt líf

Markmið:

  • Að nemendur kynnist því sem jafnaldrar þeirra eru að fást við – innanlands eða utan.
  • Að hvetja til samskipta við nemendur í öðrum löndum og kynnast lífsháttum þeirra.
  • Að nemendur þjálfist í að segja frá sjálfum sér og eigin lífi á hvort sem er á eigin tungu eåa erlendum tungumálum.
  • Að nemendur þjálfist í að spyrja markvissra spurninga og svara skilmerkilega.

Þetta verkefni hentar vel til samþættingar greina (móðurmáls og norrænna mála) og samskipta við nemendur annars staðar.

 

Verkefni:

Hugmynd er að setja upp hópa unglinga á innra neti skóla eða í samstarfsverkefnum milli landshluta eða landa þar sem nemendur skrifa ævintýri, fréttir, frásagnir og sögur og setja þau inn á netið öðrum til ánægju.

Hægt er að biðja nemendur að ganga út frá einhverju ákveðnu sameiginlegu minni.

Úrvinnsla:

  • Kannanir: Nemendur geta gert könnun í bekknum sínum þar sem spurt er um tómstundir s.s. lestur, notkun sjónvarps, iðkun/áhuga á íþróttum. þeir geta haft samband við einhvern bekk annars staðar á landinu, í öðru landi/löndum sem gerir sams konar könnun – og síðan geta bekkirnir skipst á niðurstöðum, borið þær saman og birt þær, t.d. í formi einfalds texta og teikninga, ljósmynda eða úrklippa á veggspjaldi.

  • Vinabekkir: Nemendur eignast vinabekk í skóla, innan lands eða utan. Nemendur búa til spurningar varðandi allt sem þeir vilja vita um daglegt líf einstaklinga í viðkomandi landi / landshluta og vinabekkurinn fær það hlutverk að svara þessum spurningum.

  • Bréfaskipti, bekkjarblað, myndaalbúm með stuttum texta, tölvusamskipti. Gera má samanburð á milli landa/landshluta. Bekkurinn gefur út bekkjarblað þar sem hver nemandi segir frá sjálfum sér í máli og myndum; fjölskyldu, áhugamálum, hvað hann gerir á sumrin o.s.frv. þetta blað er sent vinabekknum sem kynning (og bekkurinn fær væntanlega svipað blað í staðinn). Í blaðinu má einnig fjalla um félagslíf unglinga, fermingu, siði og venjur og áhugamál þeirra. Segja má frá uppáhaldsleikaranum, -söngvaranum, -íþróttamanninum, -tónlistinni, -matnum, -tískunni, -bókinni, -höfundinum. . .

Ritbjörg og Ritfærni eru góð hjálpartæki.