Sagan í hnotskurn ☼smellið hér☼
Staðsetning ☼myndir☼
Úganda er í miðri Austur-Afríku og á landamæri að Súdan, Lýðræðislega lýðveldinu Kongó (DRC), Rúanda, Tansaníu og Kenía. Viktoríuvatn nær yfir stóran hluta landamæranna. Landið er 241.038 ferkílómetrar að stærð (álíka stórt og Bretlandseyjar).
Landið hefur lengi verið kallað „Perla Afríku“, vegna þess hve það er ríkt af náttúruauðlindum, gróðri og dýralífi.
Hvaðan koma börnin?
Mercy og Ívan komu frá ☼Kampala☼
Landsveffang
Landsveffangið er .ug
Notendur internetsins eru 2,5 milljónir (árið 2008)
Höfuðborg ☼myndir☼
Höfuðborg Úganda heitir Kampala. Þar búa um 2 milljónir manna.
Skoðið sýnishorn úr mynd um ☼Old Taxi Park☼ sem kallað er „Hjarta Kampala“.
Flestir Úgandabúar búa þó í dreifbýli.
Þjóðhátíðardagur og stjórnarfar ☼hlustaðu á þjóðsönginn☼
Þjóðhátíðardagur Úganda er 9. október.
☼Hér er myndband af börnum að syngja þjóðsönginn☼
Textinn:
Oh Uganda may God uphold thee,
We lay our future in thy hand,
United free for liberty
Together we’ll always stand.
Oh Uganda the land of freedom,
Our love and labour we give,
And with neighbours all,
At our country’s call
In peace and friendship we’ll live.
Oh Uganda! the land that feeds us,
By sun and fertile soil grown,
For our own dear land,
We shall always stand,
The pearl of Africa’s Crown.
Sendiráð /ræðismaður Úganda á Íslandi?
Sendiráð Úganda fyrir Norðurlöndin er í Danmörku:
Sofievej 15
DK-2900 Hellerup
Afgreiðslutími: 09:00-12:30 and 14:00-16:00 (Mon-Fri)
Sími: 3962 0966 / 3962 0953
Telefax: 3961 0148
Netfang: info@ugandaembassy.dk
Vefsíða: ☼http://www.ugandaembassy.dk/☼
Fjöldi íbúa (haust 2010)
Íbúar Úganda eru 33.398.682 talsins.
Frjósemishlutfall: Hver kona eignast að meðaltali 6,73 börn (næst stærsta hlutfall heims).
Ungbarnadauði: 63,7 börn deyja af hverjum 1000 fæddum.
Lífslíkur við fæðingu: 52,98 ár (karlar: 51,92 ár konur: 54,07 ár)
Aldursdreifing: 0-14 ára eru 50 %
15-64 ára eru 47,9 %
65 ára og eldri eru 2,1 %
Þjóðflokkar
Úgandabúar eru fjölbreytt blanda ýmissa þjóðflokka og í raun er enginn þeirra í meirihluta. Þeim er m.a. skipt eftir því af hvaða stofni tungumál þeirra er. Oftast er talað um þrjá megin þjóðflokka, Bantúmenn, Nílóta og Súdanska ættbálka.
Talið er að Bantúmenn hafi fyrstir sest að í Úganda og hafa þeir löngum verið valdamestir. Þeir búa aðallega í syðri hluta landsins en þó einnig á öðrum svæðum. Til Bantúmanna teljast m.a. ættbálkarnir Baganda, Banyoro, Basoga, Bagishu, Banyankore, Bakiga, Batooro, Bakonjo, Bamba, Batwa, Bagishu, Basamia-Bagwe, Bakenyi, Baruli og Banyole.
Nílótar búa aðallega í norðri og til þeirra teljast m.a. þeir sem tala Langi, Acholi, Lugbara og Karamojong mál.
Til súdanskra ættbálka teljast m.a. Madi, Okebu, Bari og Metu.
Úgandabúar skilgreina sig frekar eftir ættbálknum sem þeir tilheyra heldur en að segjast vera frá Úganda. Á nýlendutímanum úthlutuðu Bretar mönnum af Baganda ættbálknum flestum stjórnunarstöðum. Þetta hefur leitt til togstreitu á milli þeirra og annarra ættbálka.
Um 1% íbúanna eru evrópskir, asískir eða Arabar.
Trú
Flestir eru kristnir eða rúm 80% og skiptast þeir u.þ.b. jafnt í mótmælendur og rómversk kaþólska. Um 12% eru múslímar og nokkur prósent iðka hina fornu trú innfæddra. Margir af hinum kristnu hafa blandað trú sinni við forna trú eins og tíðkast víða annarsstaðar í Afríku.
Tungumál ☼Swahili☼
Enska og Swahili eru tvö opinber tungumál landins. Enska er kennd í skólum og flest blöð og aðrir fjölmiðlar nota hana. Þó fáir Úgandabúar tali Swahili er það notað í verslun og samskiptum við önnur Afríkulönd.
Hins vegar eru fleiri en 30 önnur tungumál töluð í Úganda. Útbreiddast er Luganda (ganda), mál Bagandaættbálksins. Flestir í höfuðborginni Kampala skilja Luganda. Önnur tungumál eru m.a. Alur, Lugbara, Masaba, Rwanda, Nyankole, Nyole, Soga, og Teso (Iteso). Flestir Úgandabúar skilja fleiri en eitt tungumál.
Hér er gott safn af orðum og orðtökum á ☼Luganda☼ ásamt upplýsingum um framburð og notkun.
Siðir og venjur
Eins og sjá má í kaflanum um þjóðerni í landinu skilgreina Úgandabúar sig frekar eftir ættbálkinum sem þeir tilheyra og vegna þess hvernig landamærin voru dregin af Bretum á nýlendutímanum, þvers og kruss yfir svæði þjóðflokka, hefur verið erfitt fyrir íbúa landsins að samræma sig sem þjóð í hefbundnum skilningi þess hugtaks. Hér er þó reynt að segja frá þeim háttum og venjum sem Úgandabúar eiga sameiginlegar.
Úgandabúar meta arfleifð sína mikils. Fjölskyldan og ættbálkurinn skiptir mestu máli. Vestræn áhrif hafa aukist síðustu árin, og hlutir eins og gsm símar, vídjóupptökuvélar og utanlandsferðir eru tákn um ríkidæmi. Mikil virðing er borin fyrir menntuðu fólki og þeim sem tala góða ensku. Eldra fólk reynir þó að draga úr þessari þróun og halda í hefðirnar, t.d. söng og dans. Í sveitum er ríkidæmi fólks frekar metið út frá stærð jarðar og fjölda nautgripa.
Úgandabúar standa upp í virðingarskyni til að heilsa sér eldra fólki og Bantustelpur krjúpa á kné. Konur krjúpa einnig á kné þegar þær heilsa karlmönnum. Menntaðar konur í borgum beygja þó fremur hnén heldur en að krjúpa. Fólk er ávarpað með nafnbót við formlegar aðstæður en vinir og kunningjar nota skírnarnöfn hvors annars. Ungt fólk kallar eldra fólk frænda og frænku jafnvel þó enginn skyldleiki sé. Stundum er fólk jafnvel kallað nöfnum barna sinna, t.d. Mama Josephine (mamma Jósefínu). Þegar ungt fólk sem talar Luganda hittist segir það gjarnan Ki Kati? (Hvað segirðu?) og Ayendi, ki kati? (Allt fínt, hvað segir þú?). Á Luo væri sambærilegt að segja Kop ango og svara með Kop pe.
Úgandabúar nota mest hægri hendina, t.d. til að heilsa og borða. Að taka við gjöf með báðum höndum sýnir þakklæti en þeir nota ekki þá vinstri eingöngu. Þeir benda með höndum eða jafnvel vörum og nota ýmsar handahreyfingar í samræðum við vini eða kunningja. Að lyfta augabrúnum táknar að þú sért sammála. Að andvarpa í heimsókn hjá öðrum þykir dónaskapur. Meðan setið er á að hylja lærin og ef maður krossleggur handleggina getur það verið túlkað sem ögrun.
Úgandabúar fara oft í heimsóknir til vina og ættingja og þeir eru afar gestrisnir. Gesturinn fær ávallt það besta sem er í boði og ef nauðsyn krefur fer gestgjafinn til næsta nágranna og gesturinn fær að sofa í hans rúmi. Gestir koma gjarnan með gjafir, eitthvað matarkyns eða annað nytsamlegt. Blóm eru gefin þeim sem eru að jafna sig á sjúkdómi eða eftir barnsburð. Auk þess fara menn í almenningsarð, kirkju eða á fótboltaleik í frístundum. Karlmenn hittast á barnum og ræða um íþróttir eða fótbolta en konurnar hittast frekar heima.
Mörgum þykir gaman að spila á spil eða sérstakan úgandískan leik sem heitir omweso (coro á Luo máli). Það er borðspil leikið með fræjum eða steinum.
Fjölskyldulíf
Ungt fólk finnur sér maka í skólanum, kirkjunni eða á hátíðum og flestir hafa frelsi til að velja sér maka eftir eigin höfði en skriflegt samþykki þarf frá foreldrum beggja til að giftingarathöfnin geti farið fram. Foreldrar brúðarinnar fá pening, búfénað eða annað verðmæti sem þakklætisvott fyrir að hafa alið hana upp og til að bæta upp fyrir „dótturmissinn“, svo í raun réttri kaupir maðurinn sér brúði. Hjá Bagandafólki er haldin sérstök kynningarathöfn fyrir brúðkaupið. Þá kemur brúðguminn ásamt einum vini með gjafir handa brúðinni og fjölskyldu hennar. Svipaðar útgáfur af þessum sið tíðkast einnig hjá öðrum ættbálkum. Algengur giftingaraldur er 18-25 ára. Að eiga mörg börn bendir til ríkidæmis svo það er mikið gleðiefni þegar kona verður ófrísk. Hefðir í kringum skírn og þegar börn eru tekin í tölu fullorðinna eru ólíkar eftir ættbálkum. Flestir drengir eru umskornir og sumstaðar einnig stúlkur en það er nú bannað með lögum.
Hús í borgum eru vanalega úr steinsteypu með nokkrum herbergjum, rafmagni og rennandi vatni úr krana fyrir utan. Eldunaraðstaðan og klósettið er einnig utandyra.
Hús í sveitum eru búin til úr mold með stráþaki. Karamojong fólkið í norðaustri byggir veggi utan um þorp sín til að verjast áhlaupum frá óvinaættbálkum.
Hátíðir
Í sveitum gefast fólki mörg tækifæri ár hvert til að koma saman og fagna, hvort sem það tengist fjölskylduatburði eða uppskeru. Opinberir hátíðsdagar eru m.a.:
26. janúar – frelsunardagurinn
8. mars – konudagur
1. maí – verkalýðsdagurinn
3. júní – dagur Martyrs
9. júní – hetjudagurinn
9. október – þjóðhátíðardagurinn
Ásamt trúarlegum hátíðum bæði í kristinni- og múslímskri trú.
Staða kvenna
Fjölkvæni tíðkast víða í Úganda sem undirstrikar að það er karlmaðurinn sem ræður en það hefur samt sem áður gefið konum tækifæri til að vinna saman gegn yfirráðum karlmanna. Konurnar bera ábyrgð á börnunum, vinna landbúnaðarstörf og eru mjög mikilvægar innan þeirrar atvinnugreinar. Þær eru þó fjárhagslega háðar eiginmanni sínum. Fyrr á öldum var konum kennt að sýna karlmönnum undirgefni en þær gátu þó haft óbein áhrif á stjórnarfar og sumstaðar voru konur trúarleiðtogar. Samfélagsleg staða kvenna hefur hægt farið batnandi og stefna ríkisstjórnarinnar er sú að draga úr mismunun kvenna.
Fjölmiðlar
Í Úganda er fjöldi frjálsra útvarpsstöðva og gefin eru út þó nokkur dagblöð þar sem opin pólitísk umræða fer fram.
Tvö úgandísk blöð á ensku:
☼Newvision☼
☼Monitor☼
Útvarp:
☼Simba☼
☼radiokatwe☼
Þessa stöð er hægt að hlusta á á netinu – ☼connectuganda☼
Tónlist og kvikmyndir ☼tónlist☼ Á síðunni hægt að skoða myndir af ýmsum framandi hljóðfærum og lesa um þau.
Tónlistarstílar geta verið breytilegir eftir ættbálkum og einnig hljóðfærin sem spilað er á. T.d. spila Bagandamenn á ngalabi en það er löng tromma. Víða í landinu spila menn á hörpur, lýrur, þumalpíanó (okeme á Luo) og sílófóna.
Acholi fólkið er þekkt fyrir sérstaka dansa sína.
☼Horfið hér á ýmis tónlistarmyndbönd frá Úganda☼
Líf barna ☼myndir☼
Síðustu ár hafa aðstæður úgandískra barna farið batnandi en ríkisstjórnin hefur varið miklum fjármunum í að bæta m.a. grunnskólakerfið og berjast gegn alnæmi.
Þrátt fyrir það eru a.m.k. 2 milljónir munaðarlausra barna í landinu, helmingur þeirra hefur misst foreldra sína vegna alnæmis. Á hverju ári smitast 20.000 ungabörn af alnæmi í gegnum móður sína. Í borgum er mikið af munaðarlausum börnum á öllum aldri sem búa á götunni, jafnvel smábörnum. Sumar stúlkur sem hafa verið heimilislausar allt sitt líf eru orðnar mæður og hafa eignast börn sín á götunni. Oft verða elstu systkinin höfuð fjölskyldunnar ef foreldrarnir hafa fallið frá.
Athyglisverð grein sem birtist á ☼vef BBC árið 2007☼ þar sem kona sem hefur unnið með götubörnum í höfuðborginni Kampala og hjálpað þeim að öðlast betra líf segir frá.
Innan fjölskyldunnar byrja börn mjög snemma að hjálpa til á heimilinu, jafnvel bara þriggja ára. Þau þvo leirtau og sópa og eldri stelpur hjálpa til við umönnun yngri systkina eða sinna garðinum. Strákar sjá frekar um búfénað, fara í sendiferðir og hjálpa til á akrinum. Börn tilheyra föður sínum samkvæmt lögum, líka ef foreldrar skilja.
Börn í Norður-Úganda hafa lengi lifað í skugga óeirða. Þar hafa uppreisnarhermenn LRA rænt börnum til að nota þau í stríði, myrt fjölda fólks og nauðgað stúlkum og konum. Börnin hafa neyðst til að flýja ástandið með fjölskyldum sínum en mörg þeirra eru líka munaðarlaus. Þetta fólk býr í flóttamannabúðum við fremur bágar aðstæður, í landinu eru um 200 slíkar búðir.
Hér ☼má lesa um stúlku sem var barnahermaður☼ í Úganda en býr nú í Danmörku og hefur gefið út bók um reynslu sína.
Hér ☼má lesa grein frá 2005 um börn í Norður-Úganda☼ sem ferðast um á nóttunni til að leita sér skjóls.
Afskaplega flott ☼heimasíða☼ um verkefni sem fólst í því að 100 úgandísk börn, bæði í sveitum og borgum, voru spurð að því hvað þau myndu vilja kaupa sér fyrir 50 dollara. Til þess að svara spurningunni teiknuðu þau myndir og á þeim er allt frá bananatrjám til skólagjalda,
i-poda og fartölva. Á síðunni er fólki boðið að kaupa eina mynd fyrir 50 dollara. Hægt er að skoða myndirnar ásamt ljósmyndum af börnunum og myndbandi.
Hér er ☼myndband á youtube☼ þar sem úgandískur strákur er að lýsa nútíma eldhúsi og hvernig það virkar.
☼Hér er grein á ensku um stelpur í Úganda sem spila fótbolta☼
Skólar
Börn byrja 6 ára í skóla og eru 7 ár í grunnskóla. Um 40% barna sem klára grunnskólann halda áfram í gagnfræðaskóla og sum þeirra klára framhaldsskóla. Ekki eiga öll úgandísk börn þess kost að ganga í skóla vegna þess að foreldrar þeirra geta ekki borgað skólagjöld. Árið 1997 hóf ríkisstjórnin að greiða skólagjöld fyrir 4 börn á fjölskyldu sem jók hlutfall skólabarna töluvert. Skólarnir í sveitunum er þó oft illa í stakk búnir til að mennta börnin, það vantar kennsluefni og betri aðstöðu. Algengt er að í einum bekk séu 70 – 100 börn.
Makarere háskólinn er sá elsti í landinu og einn sá fremsti í Afríku.
☼Hér☼ er hægt að hlusta á frásögn 10 ára gamallar úgandískrar stelpu sem ætlar að verða læknir en þarf að vinna sjálf fyrir skólagjöldum sínum (á ensku).
☼Hér☼ má lesa frásagnir úgandískra kvenna sem hafa hlotið æðri menntun.
☼Hér☼ má lesa nánar um menntakerfið í Úganda og skoða tölfræðiupplýsingar.
Heimasíður tveggja skóla í Úganda:
☼Famhaldsskóli☼
☼Heimavistarskóli fyrir stráka ☼
Íþróttir
Vefsíða ☼The Kids League☼ er íþróttafélag fyir börn í Úganda. Það hefur hjálpað mörgum börnum að öðlast betra líf í gegnum íþróttir og leik. Hér () er heimasíða The Kids League
Vinsælasta Íþrótt landsins er fótbolti. Í borgum stundar fólk einnig körfubolta, tennis, krikket, rúbbí, hnefaleika og netbolta (íþrótt svipuð körfubolta sem bara stelpur spila). Úgandabúar hafa einnig náð árangri á alþjóðlegum mótum í frjálsum íþróttum. John Akii-Bua vann gullverðlaun í 400m hlaupi á Ólympíuleikunum í München 1972. Hann varð svo glaður þegar hann vann að þegar áhorfandi rétti honum úgandíska fánann hljóp hann heilan hring á brautinni veifandi fánanum. Þetta er núna hefð meðal gullverðlaunahafa í hlaupagreinum.
Fleiri frægir íþróttamenn frá Úganda eru hnefaleikakappinn John „The Beast“ Mugabi og fótboltamaðurinn Magid „Magic“ Musisi. Hann var fyrsti úgandíski atvinnumaðurinn í Evrópu en hann gekk til liðs við franskt deildarlið árið 1992. Hann lést úr erfiðum veikindum árið 1995.
Matargerð
Uppskriftir frá Úganda á ☼íslensku☼ á ☼ensku☼
Úgandabúar til sveita framleiða að mestu leyti sinn eigin mat. Þeir borða tvær máltíðir á dag, fyrir hádegi og á kvöldin. Þeir nota yfirleitt ekki hnífapör heldur borða með hægri hendinni og þvo sér því alltaf um hendur fyrir mat. Maturinn er eldaður yfir opnum eldi og yfirleitt er snætt utandyra, á verönd eða undir tré. Venjan er sú að karlmenn og eldri drengir sem njóta virðingar (eru t.d. í framhaldsskóla) sitja við borð en konur og börn á dýnum á gólfinu. Til sveita er algengt að það sé einn sameiginlegur diskur fyrir alla en í borgum er oft hver með sinn disk. Við matarborðið er ekki til siðs að spjalla saman, foreldrar brýna fyrir börnum sínum að tala ekki við matarborðið svo að það sjáist ekki í hálftugginn mat eða hrökkvi ofan í þau. Einnig svo þau fái nóg af sameiginlega diskinum.
Matooke er algengur uppáhalds réttur, það eru stappaðir mjölbananar (þeir eru ekki jafn sætir og þessir venjulegu) gufusoðnir í bananalaufum. Einnig borðar fólk mikið af brauði úr hirsi (kwon kaal), flatbrauð (chapati), maísmauk (pasho), hrísgrjón, kassava og sætar kartöflur. Nauta- geita- og svínakjöt er algengast. Reykt kjöt eða fiskur með hnetusmjöri er vinsælt sumstaðar. Einnig er mikið borðað af sítrusávöxtum, mangó, melónum og papaya. Steiktar, saltaðar og afvængjaðar engisprettur þykja lostæti. Hnetur og baunir er mikilvægur hluti af fæðu út af prótíninu. Þjóðardrykkur Úganda er bananagin (waragi).
Tíska
Í borgum klæðir fólk sig í vestrænum stíl. Notuð föt sem flutt eru inn frá Norður Ameríku og Evrópu njóta mikilla vinsælda. Mörgum þykir ekki virðingarvert ef konur ganga í stuttum pilsum en menntaðar stelpur í borginni kjósa í auknum mæli slíkan klæðnað. Margar konur klæðast vöfnum pilsum.
Hefðbundinn úgandískur klæðnaður er gomesi sem er kjóll í mörgum lögum, og kanzu, sem er síður, útsaumaður bómullarsloppur fyrir karlmenn. Það er mest notað í Mið-Úganda og Karamojong fólkið klæðist því yfirleitt nema þegar það ferðast á önnur svæði.
Fagrar konur njóta aðdáunar, ljóst hörund þykir fallegt.
Listir
Alþýðulist í Úganda hefur bæði notagildi og er falleg. Fólk býr m.a. til körfur, batík (málað á textíl), leirmuni og útskorna muni. Oft eru skornar út myndir af atburðum eða hetjum úr sögu landsins.
Úgandabúar (aðallega fólk af Bagandaþjóðflokknum) kunna að búa til mjög sérstakt efni úr trjáberki, kallað „Bark cloth“. Hér má horfa á ☼Youtube myndband☼ á ensku um hvernig þetta efni er búið til.
Úgandísk alþýðulist er mikils metin meðal meðal áhugamanna og safnara víða um heim.
Tveir úgandískir málarar, David Kibuuka og Henry Lutalo Lumu, tileinkuðu sér vestræna málaratækni og urðu þekktir utan Afríku en myndir þeirra lýstu afrískri menningu og andrúmslofti.
Hér eru tvær heimasíður um David Kibuuka ☼kibuuka-prints☼ ☼kibuuka☼
☼Síða☼ um annan úgandsíkan listamann, Paul Nzalamba.
Munnmælasögur sem farið hafa mann fram af manni eru vinsælt skemmtiefni. Okot p’Bitek er rithöfundur og ljóðskáld sem tókst að sameina alýðusögur og skáldskap í verkum sínum. Hann er eitt af virtustu ljóðskáldum Afríku og gaf m.a. út ljóðabókina Song of Lawino árið 1966. ☼Hér☼ er hægt að lesa meira um hann.
☼Violet Barungi☼ er vinsæll kvenrithöfundur frá Úganda.
Hér er heimasíða ☼samtaka kvenrithöfunda☼ í Úganda.
Veðurfar ☼veðrið í Úganda í dag☼
Þrátt fyrir nálægðina við miðbaug er ekki jafn heitt í Úganda og maður skyldi ætla vegna hæðar landsins yfir sjávarmáli. Veðurfar er vel ákjósanlegt til ræktunar. Það eru tvö regntímabil, frá mars til júlí annars vegar og september til október hins vegar. Meðalhitinn er um 22-33°C, fer eftir landsvæðum og árstíma. Það er örlítið kaldara á svæðinu kringum Viktoríuvatn og í fjöllunum í suðvestri er kalt og þokukennt árið um kring.
Landslag ☼landslagsmyndir☼
Landslag Úganda ákaflega fjölbreytt, landið er frjósamt og fagurt.
Það liggur á miðri austur-afrísku hásléttunni og meðalhæð yfir sjávarmáli er um 1100 metrar. Hásléttan hallar niður á við til norðurs og á útjöðrum hennar er hún skorin af fjallgörðum og dölum. Á vesturlandamærunum eru Virungafjöll, Mánafjöll (Ruwenzori fjallgarðurinn) og vesturhluti Sigdalsins mikla. Virungafjöll eru eldvirk en í Mánafjöllum er að finna hæsta tind landsins, Margherita (5110 m). Hann er snævi þaktur.
Í norðaustri er keðja eldfjalla, þ.á.m. Morungole, Moroto, Kadam og Elgon. Við Súdönsku landamærin eru Imatong fjöll.
Sex stór stöðuvötn eru í Úganda og ótal minni vötn og ár. Stærst (og jafnframt næst stærsta ferskvatnsstöðuvatn heims) er Viktoríuvatn sem liggur á landamærum Úganda, Kenía og Tansaníu. Úr Viktoríuvatni rennur áin Níl sem liðast norður og vestur eftir landinu, gegnum Súdan og til sjávar í Egyptalandi. Hin stóru stöðuvötnin heita Georg, Edward, Albert, Kioga og Bisina.
Landnýting og náttúruauðlindir
Af náttúruauðlindum landsins má nefna kopar, kóbalt, kalkstein, salt, gull og vatnsorku.
Jarðvegurinn er einstaklega frjósamur og vel fallinn til ræktunar. Til matar eru m.a. ræktaðir mjölbananar, kassava, maís, sojabaunir, hirsi, dúrra, baunir, sætar kartöflur, jarðhnetur og ýmis konar grænmeti.
Auk þess er ræktað kaffi og te ásamt tóbakslaufum, bómull og blómum.
Búfénaður er m.a. nautgripir, kindur, geitur, svín, kjúklingar, endur og kalkúnn.
Um 30% lands er nú nýtt í ræktun.
Við vötnin eru stundaðar fiskveiðar.
Dýralíf ☼ljósmyndir af dýrum☼
Í Úganda er fjölbreytt dýralíf. Þar má m.a. finna ljón, hlébarða, fíla, buffala, antilópur, svarta nashyrninga, gíraffa og sebrahesta. Í flestum ám og vötnum búa flóðhestar og krókódílar ásamt ýmsum fisktegundum. Auk þess eru ótal fuglategundir í landinu, margar hverjar í útrýmingarhættu.
Í sunnanverðu landinu hefur skógur að mestu verið ruddur en 10 þjóðgarðar eru í Úganda þar sem dýr og plöntur fá að lifa óáreitt. Stærstur er þjóðgarðurinn Murchison Falls. Í Bwindi Impenetrable skóginum sem einnig er þjóðgarður býr um helmingur fjallagórilla heimsins en þær eru í mikilli útrýmingarhættu.
Ekki má svo gleyma skordýrunum, t.d. moskítóflugunni, tse tse flugunni og margskonar fiðrildum.
☼Hér☼ má skoða ýmsar upplýsingar um dýralíf og þjóðgarðana í Úganda.
Ógnir náttúrunnar
Í Úganda eru engar sérstakar náttúruógnir.
Atvinnulíf
82% vinnuafls stunda landbúnað, 5% starfa við iðnað og 13% í þjónustugeiranum. (tölur frá 1999)
Landbúnaður er undirstaða atvinnulífsins. Meira en helmingur uppskerunnar kemur frá smábændum sem rækta innan við hektara lands, aðallega í suðri.
Útflutingsvörur eru kaffi, fiskur, te, bómull, blóm og gull.
Á 9. áratugnum var bann sett við útflutningi á timbri til að sporna við eyðingu skóga, ætlunin var að koma reglu á innlenda noktun þess áður en útflutningur hæfist á ný. Þó að því takmarki hefði ekki alveg verið náð hófst útflutningur á ný um miðjan 10. áratuginn.
Náttúrufegurð og dýralíf Úganda laðar að sér marga ferðamenn og sá iðnaður er nú í sókn. Undir ógnarstjórn Idi Amins á 8. og 9. áratugnum og vegna pólitísks óstöðugleika á þeim 10. hefur hann hins vegar ekki verið eins blómlegur hingað til og efni standa til.
Peningar
Gjaldmiðill Úganda er úgandískur skildingur.