Albanie

 

alnew

 

Sagan í hnotskurn ☼Smellið hér☼

Staðsetning og heiti ☼myndir frá Albaníu☼
Albanía er á Balkanskaga, við Adríahaf og liggur að Serbíu og Svartfjallalandi nyrst, þá Makedóníu og loks Grikklandi syðst. Landið er 28.748 ferkílómetrar að stærð.
Langt heiti: Republika e Shqiperise/ Lýðveldið Albanía.
Stutt heiti: Shqiperia/ Albanía.
Þessi litla sólríka sneið af strönd Adríahafs hefur árum saman orðið fyrir barðinu á fátækt, vígaferlum og of mörgum „fimm ára áætlunum“. Fólk hefur flúið á bátum í leit að betra lífi annarsstaðar en samt býr landið yfir töfrum Miðjarðarhafslandanna.

Hvaðan koma nemendurnir?
Nemendur sem eru Kosovo/Albanar hafa komið frá ☼Prizren☼ í Kosovo og albanskir nemendur frá
☼Tirana☼ í Albaníu.
Til að öðlast betri skilning á raunasögu albönsku þjóðarinnar sem hefur verið á sífelldum hrakningum í gegnum aldirnar er athyglisvert að skoða ☼söguna í hnotskurn☼
Árið 1999 fóru margir Albanir frá Kosovo í Júgóslavíu til Vesturlanda sem flóttamenn vegna ófriðarins þar. Margir Kosovo-Albanir komu til Íslands. Saga þessara Albana og bakgrunnur er öðruvísi en þeirra sem búa í Albaníu.
Albanski herinn er við æfingar nærri landamærunum við Kosovo nú árið 2003. Albanir óttast bardagana í Kosovo, því 90% íbúa þar eru af albönskum uppruna og munu því leita yfir landamærin.
☼Hugleiðingar sjálfboðaliða að loknum störfum í Albaníu☼

Landsveffang
Landsveffangið er: .al
Notendur Internetsins: 30.000 (2003)
☼http://www.motherteresa.org/☼
Móðir Teresa fæddist 27. ágúst 1910 í Skopje í
Makedóníu. Upprunalega hét hún Gonxhe Bojaxhiu. Albanskir foreldrar hennar hétu Nikollë og Drandafille Bojaxhiu.
„Þó að heimurinn sé fullur af góðu fólki, miklum mannúðarsinnum sem láta sig skipta velferð náungans, fólki sem gefur milljarða dala til velgerðarmála og fólki sem lætur í sér heyra, þá stendur móðir Teresa uppúr fjöldanum, hún er einstæð“ segir á vefsíðu um móður Teresu.
Vefur á ensku um Albaníu ☼Albania/cultural_heritage☼
Vefur á mörgum tungumálum um albanska rithöfundinn Elviru Dones sem býr í Sviss.

☼elviradones.com☼

Höfuðborg  ☼myndir☼
Höfuðborgin heitir Tirana.

Þjóðhátíðardagur og stjórnarfar
☼hlustaðu á þjóðsönginn☼
Sjálfstæði: 28. nóvember 1912, frá Tyrkjaveldi.
Þjóðhátíðardagur: 28. nóvember.
Stjórnarfar: lýðræði er að komast á.
Þing: Þjóðþing (Kuvendi Popullor) er í einni málstofu, 100 fulltrúar kosnir í beinum kosningum og 40 kosnir til fjögurra ára í hlutfallskosningu.

Næsta sendiráð /ræðismaður
Sendiráð: Capellavägen 7
SE-181 32 Lidingö, Stockholm
Afgreiðslutími: 08:00-16:00 virka daga
Sími: (8) 731 09 20 / 731 09 30
Fax: (8) 767 65 57

Sendiherra:
His Excellency Mr. Shaban Murati
2003
Sendiráðunautur:
Frú Valentina Ylli

Fjöldi íbúa (júlí 2004)
Íbúafjöldi er: 3.544.808 .
Aldursdreifing: 0-14 ára 26,4%; 15-64 ára 65,3%; 65 ára og eldri 8,3%.
Lífslíkur við fæðingu: konur 80,02; karlar 74,37.
Frjósemishlutfall: 2,05 börn fædd á hverja konu.
Ungbarnadauði: 22,31 af hverjum 1000 fæddum börnum deyja.

Þjóðernishópar
Albanir 95%, Grikkir 3%, aðrir 2% (Vlach, Tatarar, Serbar og Búlgarir) (1989).

Trú
Múslímar 70%, albanskir rétttrúnaðarsinnar 20%, rómversk kaþólskir 10%.
Albanía er eina landið í Evrópu þar sem múslímar eru í meirihluta.
Árið 1967 lokaði kommúnistastjórnin öllum moskum og kirkjum og bannaði allar trúariðkanir.
Moskur og kirkjur voru notaðar til annarra hluta. Sumar voru notaðar sem leikfimisalir, aðrar urðu kvikmyndahús eða vörugeymslur.
Árið 1990 voru nokkrar moskur og kirkjur opnaðar aftur og enn eru nokkrar opnaðar á ári hverju. Nú geta múslímar og kristnir menn haldið helgidaga sína en samt eru margir Albanir sem ekki iðka neina trú.

Tungumál ☼albanska☼
Opinbera tungumálið er albanska sem greinist í tvær mállýskur en einnig er gríska töluð.
Fólk fyrir sunnan Shkumbifljótið talarTosk. Geg er töluð fyrir norðan. Árið 1972 var haldið stafsetningarþing þar sem mótað var eitt ritmál sem nú er viðurkennt fyrir báðar mállýskurnar. Albanska er samsett úr þeim báðum.
Albanska (Shqipja) er komin af illýrísku sem er indóevrópskt mál. Mörg orð eru komin úr slafneskum málum, rómönskum málum og nútímagrísku.
Margir Albanir lærðu ítölsku fyrir 1943 en aðrir hafa náð tökum á málinu með því að horfa á ítalskar sjónvarpsstöðvar.
Fyrst var ritað á albönsku uppúr 1300. Fyrsta albanska bókin, Meshari eftir Gjon Buzuku, var gefin út árið 1555. Fyrsta albanska orðabókin var gefin út árið 1635 og í henni voru 5.000 orð.

Siðir og venjur
Nærri helmingur þjóðarinnar býr í bæjum og borgum en aðrir fást við frekar frumstæðan landbúnað. Í hefðbundnu samfélagi samanstóð heimilið af föður og móður, ógiftum dætrum og giftum sonum með konur sínar og börn. Þegar foreldrarnir létust var eigunum skipt jafnt á milli sonanna.
Albanskir eiginmenn hjálpa konum sínum yfirleitt ekki því þeir telja að konur eigi að vinna heimilisstörfin.
Nú er fátíðara að fólk búi í stórfjölskyldum en algengt er að einn sonur og fjölskylda hans búi hjá foreldrunum til að sjá fyrir þeim á gamals aldri.
Elliheimili eins og tíðkast á Vesturlöndum eru ekki í Albaníu. Þess vegna búa aldraðir foreldrar hjá börnum sínum og njóta heiðurs og virðingar.
Frá árinu 1945 hafa stúlkur og konur verið hvattar til að ganga í skóla og vinna utan heimilis. Um þessar mundir er örðugt efnahagsástand og mikið atvinnuleysi og því eru atvinnutækifæri kvenna lakari. Þó að flestir Albanir séu múslímar þurfa albanskar múslímakonur ekki að hylja andlit sín þótt þær noti oft höfuðsjöl.
Albanir tjá sig mikið með svip, bendingum og líkamsmáli. Þeir nota augu (lyfta brúnum), hendur (samþykki/mótmæli), og líkama (yppa öxlum o.s.fr.) til að leggja áherslu á það sem þeir segja. Þeir eru slyngir í látbragðsleik og hafa ágætt skopskyn. Fyrir heimsstyrjöldina fyrri voru stefnumót nær óþekkt en síðar fylgdu eldri konur ungum stúlkum á stefnumót sem siðgæðisverðir.
Í Albaníu er alsiða að jafnvel karlmenn faðmist þegar þeir hittast fyrst, kyssi hvor annan á kinnarnar og gangi síðan arm í arm.
Sumir albanskir siðir líkjast siðum á meginlandi Grikklands, einkum til sveita. Til dæmis þýðir það „já“ að hrista höfuðið en „nei“ að kinka kolli.
Gestrisni (bujari ) er Albönum mjög mikilvæg. Ókunnugir menn geta átt von á góðum viðtökum og að komið sé fram við þá eins og vini. Albanir eru einnig þekktir fyrir tryggð. Hugtakið „besa“ (munnlegt loforð) er öllum Albönum heilagt, bæði fyrr og síðar. Handsalað munnlegt loforð eða loforð staðfest með faðmlagi, „besa-besën“, var meira metið en skriflegur samningur og vei þeim sem rauf slíkt loforð! Versta móðgun sem hugsast getur í Albaníu er að kalla mann „i-pabëse“, það er sá sem hefur gengið á bak orða sinna.
Brúðkaup, jarðarfarir, fæðingar, afmælisdagar eða stöðuhækkanir eru helstu viðburðir sem vinir og ættingjar fagna með því að koma saman og borða, leika tónlist, segja sögur og dansa. Notaðar eru uppskriftir að veislumat sem varveist hafa kynslóð fram af kynslóð.

Fjölmiðlar
☼kohajone.com/☼ á albönsku
☼shekulli.com.al/☼ á albönsku
☼albaniannews.com/☼ á ensku og albönsku
☼balkanweb.com/☼ á albönsku og ensku
☼albanianews.com/☼ á ensku
☼shijaktv.com/☼ sjónvarp
☼topalbaniaradio.com/☼ útvarp á albönsku og ensku.

Tónlist og kvikmyndir
Ekki er mikill kvikmyndaiðnaður í Albaníu en þó fékk myndin Tirana árið núll aðalverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Saloniki. ☼kinoeye.org☼ er athyglisverður vefur sem m.a. fjallar um kvikmyndir í Albaníu.
Í dag eru margir popptónlistarmenn í Albaníu, tónskáld, söngvarar og útsetjarar. Hinir þekktustu eru Ardit Gjebrea, Elton Deda, Elsa Lila, Aleksande Gjoka (söngvarar), Shpëtim Saraçi (tónskáld og útsetjari), auk fjölda hljómsveita.

☼albmuzika.com/☼ menningarvefur sem kynnir m.a. tónlistararf Albana á albönsku.

Líf barna
☼myndir af börnum í Albaníu☼
Alþjóðlegur skóli í Tirana: ☼qsi.org/☼
Börn iðka allskyns leiki, sipp, eltingarleik og feluleik. Drengir leika fótbolta hvar sem þeir koma því við. Algengur er fingraleikur sem kallast fljúga. fljúga, fljúga. Börnin setja vísifingur á borð. Þau segja orð til skiptis. Ef orðið merkir eitthvað sem flýgur, til dæmis fluga eða fugl, þá eiga börnin að lyfta fingrunum. Ef orðið þýðir eitthvað sem ekki flýgur, eins og kartafla eða bók, og eitt barnið lyftir samt fingri, þá verður hann eða hún að gera eitthvað í refsingarskyni, eins og til dæmis að hoppa tólf sinnum á öðrum fæti.

Tengillinn hér á eftir sýnir viðtal á ensku við Suela Kapollari 16 ára albanska stúlku sem gat ekki snúið til baka frá Bandaríkjunum til fjölskyldu sinnar í Albaníu vegna stríðsástands þar í landi.  (frá 1997) ☼iml.jou.ufl.edu/projects/students/Maguire/suela.html☼

Skólar
Læsi, miðað við 9 ára og eldri, 86,5%. Konur: 79,5%; karlar 93,3%(2003).
Skólakerfið:
☼albaniansunrise.com/☼ Athyglisverður vefur um fjölmenningarlegan skóla sem er rekinn af „Ananda Marga Universal Relief Team“ í Albaníu.
Áður en Albanía varð sjálfstæð árið 1912, fór nær öll kennsla fram á tyrknesku. Fá börn fóru í skóla því þau kunnu ekki tyrknesku.
Milli 1945 og 1990 lögðu stjórnvöld höfuðáherslu á menntun. Nýir skólar voru stofnaðir og kennarar þjálfaðir.
Grunnskólar og framhaldsskólar eru ókeypis. Skólaskylda hefst um sex ára aldur. Framhaldsskólar eru fyrir fjórtán til átján ára. Þá geta stúdentar annaðhvort farið í almennt nám eða tækninám. Stjórnvöld hafa stofnað háskóla og aðrar æðri menntastofnanir. (Fyrir 1945, voru engir háskólar í Albaníu og stúdentar urðu að fara erlendis í háskólanám).
Árið 1990 var skyldunámstíminn lengdur úr átta í tíu ár. Það ár fóru flest börn á skólaskyldualdri í grunnskóla og nærri 70% héldu áfram í framhaldsskóla.

Íþróttir
Knattspyrna er vinsælasta íþróttin í Albaníu. Fólk sækir knattspyrnuleiki um helgar. Landsliðið tekur þátt í Evrópukeppni. Í bæjum er einnig aðstaða fyrir blak, körfuknattleik, fimleika, tennis og frjálsar íþróttir.
Það er mjög vinsælt að fara á ströndina og synda í Adríahafinu á heitum sumardögum. Einnig má finna heitar laugar víða um landið. Þar leitar fólk sér einnig lækninga við gigt.
Allmargir Albanir hafa tekið þátt í Ólympíuleikunum og öðrum alþjóðlegum íþróttaviðburðum fyrir hönd Grikkja. Einn þeirra var lyftingamaðurinn Pyrros Dimas sem vann gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Atlanta árið 1996.

Matargerð
Uppskriftir á : ☼íslensku☼ ☼ensku☼
Mjólk, ostur, grænmeti og brauð eru algengustu fæðutegundir Albana. Kjöt, eggaldin, paprika, ólífur og tómatar eru einnig mikið á borðum. Fetaostur og hrjúfur hvítur ostur sem kallast djathe i bardhe eru einnig algengir. Albanir borða mikið af ávöxtum.
Rjómaís (akullore) er mjög vinsæll og kaffið er annaðhvort kafe turke sem er mjög sterkt, eða kafe ekspres (espresso)
Tíska í Albaníu:

Besnik er albanskur tískuhönnuður á heimsmælikvarða.

Listir
Flottur ☼listavefur☼ á þremur tungumálum.
Í Albaníu er mjög fjölbreytt alþýðumenning. Meðan Albanir voru undir stjórn Tyrkjaveldis í 400 ár varðveittu þeir sögu sína og menningu í tónlist og sögum. Vísnasöngvarar og farandsöngvarar ferðuðust um landið og sungu söngva sem sumir voru þúsundir erinda. Það voru kvæði um hetjuskap, ættjarðarást og frelsi, hatur á kúgun og löngun til að fórna lífi sínu fyrir föðurlandið.
Handverk er fjölbreytt í Albaníu. Ull, silki, baðmull og hör eru ofin í klæði, teppi, ábreiður og púða.
Ismail Kadare er mesti núlifandi rithöfundur Albaníu. Hann var orðinn vel þekktur heimafyrir undir kommúnistastjórninni sem gaf út verk hans og lét þýða þau á önnur mál og honum var leyft að ferðast til Vesturlanda. Árið 1990 ákvað hann að setjast þar að og fylgdist úr fjarlægð með hruni kommúnismans og stjórnleysinu sem á eftir fylgdi. Hann býr nú ýmist í París eða Tirana.
Vefur um ☼Ismail☼ á ensku og albönsku
Um albanskar bókmenntir  ☼albanianliterature.com/☼ sem hafa verið þýddar yfir á ensku
Vefur ☼art.albnet.net/☼ um ýmsar listir í Albaníu

Veðurfar ☼veðrið í Albaníu í dag☼
Miðjarðarhafsloftslag, milt og temprað; svalir, skýjaðir og rakir vetur. Heit, heiðskír og þurr sumur, inni í landi er svalara og rakara. Á sléttunum meðfram ströndinni eru heit og þurr sumur og þrumuveður algeng. Vetur eru mildir og rakir og geta verið býsna harðir upp til fjalla og þar getur snjór verið langtímum saman. Meðalúrkoma á fjalllendi getur orðið yfir 1.000 mm á ári. Meðalhitinn í Tirana er frá 17 til 31°C í júlí en 2 til 21°C í janúar.

Landslag ☼landslagsmyndir☼
Að mestu hæðir og fjöll, litlar sléttur með ströndum fram.
Hæsti tindur: Maja e Korabit (Golem Korab) 2.753 m.

Landnýting og náttúruauðlindir
Náttúruauðlindir: olía, jarðgas, kol, króm, kopar, timbur, nikkel, raforka.
Ræktanlegt land: 21,09%
Varanleg uppskera: 4,42%
Annað: 74,49% (2001)
Umhverfismál: eyðing skóga, uppblástur, mengun vatns vegna iðnaðar- og heimilisúrgangs.

Dýralíf  ☼myndir af dýrum☼
Í hinum miklu eikar- og barrskógum með ströndinni eru úlfar, refir, sjakalar og frettur. Í furuskógunum innar í landinu eru brúnir bjarnúlfar, furumerðir, tvær tegundir villikatta, gaupur og hreysikettir. Nú eru um 400 úlfar í Albaníu. Rándýr, gemsar og villisvín eru algeng á sumum svæðum.
Í Tirana er það vinsæl fjölskylduskemmtun að fara í þjóðgarðinn Parku Kombëtar þar sem er tilbúið vatn og dýragarður.

Ógnir náttúrunnar
Mannskæðir jarðskjálftar, flóð, tsunamiflóðbylgjur koma við suðvesturströndina, þurrkar.

Atvinnulíf
Landbúnaður: hveiti, maís, kartöflur, grænmeti, ávextir, sykurrófur, vínber, kjöt, mjólkurvörur.
Iðnaður: matvælaframleiðsla, vefnaðarvörur og klæðagerð, timburvinnsla, olía, sement, efnavörur, námagröftur,
málmvinnsla, rafmagnsframleiðsla.
Útflutningur: vefnaðarvörur og skófatnaður, malbik, málmar og málmgrýti, hráolía, grænmeti, ávextir, tóbak.
Innflutningur: Vélar og tæki, efnavörur, matvæli, vefnaðarvörur.
Atvinnuleysi: 15,8% (gæti verið allt að 30%) (2003).
Hlutfall undir fátæktarmörkum: 30% (2001).

Peningar
Gjaldmiðill: lek (ALL)
Fjárhagsár: almanaksárið.