Að flytja frá heimili, kunnuglegu umhverfi og stuðningsneti fjölskyldu og vina raskar jafnvægi allrar fjölskyldunnar. Hlutverk í hjónabandi breytast oft, sérstaklega ef annar makinn yfirgefur vinnu til að fylgja hinum á framabraut. Foreldraábyrgðin breytist eða jafnast sem getur vakið eftirsjá og gremju til að byrja með .

Opin tjáskipti innan fjölskyldunnar eru sérstaklega mikilvæg á fyrsta árinu. Brýnt er að börnum sé leyft að tala um óþægilegar tilfinningar eins og reiði, örvæntingu og eftirsjá, til að draga úr óviðeigandi útrás og því að þessar tilfinningar fái útrás utan heimilisins.

Börn á skólaaldri/Unglingar
Börn í skóla deila oft „hveitibrauðsdagastiginu“ með foreldrunum en halda svo áfram á næsta stig menningaráfallsins þegar mismunurinn vekur með þeim ugg. Andrúmsloftið heima fyrir hefur einnig áhrif á þau.
Það er algengt að unglingar verði í upphafi reiðir og uppreisnargjarnir vegna flutningsins. Þeir eru rótfastari með vinum sínum í félagslífi og skólanum í heimalandinu heldur en yngri systkini sem eiga auðveldara með að laga sig að nýjum aðstæðum. En með tímanum og viðeigandi stuðningi foreldra, opnum tjáskiptum og þolinmæði fara þau brátt að gorta við félagana „heima“ um spennandi líf í nýju landi.

Gott og slæmt
Hið góða er að menningaráfalli fjölskyldunnar mun einhverntíma ljúka; hið slæma er að eina leiðin til að losna við áfallið er að ganga í gegnum það. Foreldrar þurfa að vera viðbúnir sex erfiðum mánuðum. Hér á eftir fara tillögur til foreldra um að auðvelda aðlögunina.
· Ástundaðu þolinmæði, þolinmæði, og aftur þolinmæði til að hlusta og ræða við börnin, miklu meira en áður. Vertu til taks eins mikið og mögulegt er í byrjun.

· Útskýrðu menningaráfall og stig þess fyrir þeim, sama á hvaða aldri þau eru. Fullorðnir vanmeta oft skilning barna.

· Sjáðu til þess að börnin geti leyft sér að láta í ljósi gremju sína eða aðrar svokallaðar neikvæðar tilfinningar, svo óánægja þeirra lendi ekki á óviðeigandi stöðum utan heimilisins (eins og t. d. að fá útrás í skólanum, þegar barnið hefur aldrei sýnt slíka hegðun áður).

· Afneitaðu ekki tilvist menningaráfallsins. Ef þú ert haldinn fullkomnunaráráttu sem ekki gerir ráð fyrir aðlögunartíma, þá getur þú „fest“ fjölskyldu þína í erfiðu stigi menningaráfallsins. Sum börn virðast geta siglt í gegnum breytingar. Önnur geta það ekki og ef viðkvæmni þeirra fyrir þessum aðstæðum er afneitað getur það framlengt „flótta“stigið.

· Skapaðu eins mikla festu og mögulegt er og komdu á nýju fjölskyldumunstri eins fljótt og hægt er. Fastar venjur eru mikilvægar. Vertu til taks til að ræða við börn þín um það sem er nýtt og öðruvísi í umhverfi þeirra og svaraðu öllum spurningum. Haltu þig við uppeldisgildi þín og vertu viss um að hjálpa þeim að ná fótfestu frá upphafi. Hjálpaðu börnum þínum að komast í leiki og útivist sem færir börn saman.

· Ef þér finnst að barnið þitt, börn eða fjölskylda séu ekki að aðlagast nýja umhverfinu, hikaðu þá ekki við að leita hjálpar hjá sérfræðingum. Það er engin skömm eða niðurlæging að leita utanaðkomandi ráðgjafar. Oft er hægt að ná miklu á tiltölulega fáum klukkustundum, með hlutlægum, þjálfuðum sérfræðingi. Það er ástæðulaust að verða fyrir langvarandi streitu að nauðsynjalausu, leitaðu hjálpar!
Reiknaðu ekki með að geta verið fullkomið foreldri á þessu tímabili. Gerðu þitt besta, vertu alltaf sveigjanlegur og varðveittu skopskynið.