Sagan í hnotskurn ☼Smellið hér☼
Staðsetning og heiti ☼myndir☼
Rússland er stærsta land í heiminum og tilheyrir bæði Evrópu og Asíu. Landsvæðið vestan Úralfjalla telst til Evrópu. Landamæri Rússlands liggja að 14 ríkjum. Það eru Aserbaídsjan, Hvíta-Rússland, Kína, Eistland, Finnland, Georgía, Kasakstan, Norður-Kórea, Lettland, Litháen, Mongólía, Noregur, Pólland og Úkraína. Í norðri liggur Rússland að Norðuríshafi og í austri að Norður-Kyrrahafi.
Landið er 17,075,200 ferkílómetrar að stærð og nær yfir ellefu tímabelti.
Langt heiti þess á rússnesku er Росси́йская Федера́ция (Rossiyskaya Federatsiya)
Hvaðan koma börnin?
Mila og Xenya komu frá ☼Moskvu☼
Landsveffang
Landsveffangið er .ru en rússneska ríkisstjórnin sér líka um veffangið .su sem tilheyrði Sovétríkjunum.
Notendur internetsins eru 25,689 milljónir.
Höfuðborg ☼myndir☼
Höfuðborg Rússlands heitir Moskva. Hún er í Evrópuhluta landsins og þar búa um 7% af íbúum þess (13 milljónir manna).
Vefmyndavél frá Moskvu: http://www.earthcam.com/russia/moscow/
Þjóðhátíðardagur og stjórnarfar ☼hlustaðu á þjóðsönginn☼
Sjálfstæði: 24. ágúst 1991
Þjóðhátíðardagur: 24. ágúst
Stjórnarfar: Lýðveldi
Löggjöf: byggð á borgararétti.
Sendiráð /ræðismaður Rússa á Íslandi?
Rússneska sendiráðið á Íslandi er til húsa við Garðastræti 33, 101 Reykjavík. Síminn er +354 551-5156, 561-0659 og netfangið russemb@itn.is
Fjöldi íbúa (2008)
Í Rússlandi búa 141.377.752 manns
14.6% eru 0-14 ára; 71.1% eru 15-64 ára
14.4% eru 65 ára og eldri.
Lífslíkur karla eru 59,12 ára;Lífslíkur kvenna eru 73,03 ára
Frjósemi: Í Rússlandi fæðast 1,39 börn á hverja konu.
Ungbarnadauði: 11,06 börn deyja fyrir hver 1000 fædd.
Þjóðernishópar
80% rússnesku þjóðarinnar eru Rússar en þar fyrir utan eru um 120 aðrir þjóðernishópar sem flestir eru litlir. Þetta eru t.d. Tartarar (3,8%), Úkraínumenn (2%), Chuvas-menn (1%), Bashkir-menn (1%) og Hvít-Rússar (1%).
Trú
Rússneska réttrúnaðarkirkjan: 15-20% Múslímar: 10-15% Önnur kristin trúarbrögð: 2%.
Í Rússlandi eru mjög margir sem stunda ekki trú eða hreinlega trúa ekki á neitt (Það eru afleiðingar þess að í fyrrum Sovétríkjunum ríkti stefna um trúleysi). Rússar eru mjög umburðarlyndir gagnvart trúarbrögðum annarra þjóða.
Tungumál
Rússneska er opinbert tungumál í landinu en þó eru töluð um 100 önnur tungumál og mállýskur. 30 þeirra tungumála eru opinber á afmörkuðu svæði. Rússneska er austur-slavneskt mál, líkt og hvít-rússneska og úkraínska. Rússar notast við Kyrillíska stafrófið. Það varð til á 9. öld e. kr. og ætlað þeim þjóðum sem tilheyrðu réttrúnaðarkirkjunni og töluðu slavnesk mál. Stafrófið samanstendur af 33 bókstöfum.
Á ☼þessari síðu☼ er hægt að skoða rússneska stafrófið og heyra hvernig það er borið fram:
Á ☼þessari síðu☼ er hægt að hlusta á hina og þessa frasa á rússnesku:
Siðir og venjur
Fjölskylda og daglegt líf
Um þrír fjórðu hlutar Rússa búa í borgum og flestir í steinsteypublokkum síðan á tímum Sovétríkjanna. Þar búa þeir með fjölskyldu sinni, oft í pínulitlum íbúðum. Vegna þess hve erfitt er að finna lausar íbúðir í Rússlandi búa stundum tvær til þrjár kynslóðir saman og oft þurfa nýgift hjón að búa með foreldrum sínum í nokkur ár áður en nýtt húsnæði finnst. Oft er líka ætlast til af uppkomnum börnum að þau sjái um foreldra sína því það er ekki hægt að treysta á ellilífeyri í Rússlandi.
Fjölskyldulíf Rússa byggist því mikið á trausti og einstaklingurinn er mjög háður fjölskyldu sinni. Rússar giftast mjög snemma (18-22 ára). Karlmaðurinn á heimilinu er yfirleitt höfuð fjölskyldunnar þó bæði konan og karlinn vinni úti. Rússland er ennþá mjög karl-miðað samfélag. Þeir taka ekki þátt í heimilisstörfunum og því mæðir mikið á rússneskum konum sem þurfa að sjá um heimilið ásamt því að vinna úti, oft á lægri launum en karlarnir. Að byggja upp starfsframa er rússneskum konum ekki nærri því jafn mikilvægt og að vera eiginkona.
Rússneskar ömmur kallast babúskur og eru fjölskyldunni mjög mikilvægar. Það er jafnvel sagt að þær haldi rússkensku samfélagi gangandi. Sumar fjölskyldur hafa nefnilega ekki efni á dagvistun fyrir börn sín jafnvel þó að báðir foreldrar vinni úti. Ömmurnar sjá þá um börnin, elda matinn, þrífa og þvo þvott og sjá um innkaupin.
Borgarfjölskyldur eiga oft svokallað dacha sem eru einskonar sumarbústaðir úti á landi. Þangað fer fjölskyldan oft um helgar til að slaka á og jafnvel rækta ýmis matvæli sem þau þurfa.
Mjög fáir Rússar eiga bíl, það telst vera lúxus. Í staðinn nota þeir almenningssamgöngur (strætó eða lestar) sem getur verið mjög þreytandi vegna þess að þar er á álagstímum yfirfullt af fólki og engin loftræsting.
Í raun tekur allt mun lengri tíma í Rússlandi og kostar meiri fyrirhöfn en fólk víða annars staðar frá hefur vanist. Það sem gæti tekið 2 mínútna langt símtal við banka eða aðra stofnun hér á landi tekur a.m.k. heilan dag í Rússlandi. Að fara út í búð eftir nauðsynjum felur í sér langa bið í biðröð. Þetta ásamt öðru gerir það að verkum að hinn venjulegi Rússi nýtur ekki daglegs amsturs. Hann byrjar ekki daginn með því hugarfari að njóta hans heldur að takast á við vandamálin sem fylgja honum. Það er ástæðan fyrir því að Rússar sjást sjaldan brosa í daglegu amstri sínu. Þeir eru mjög hreinskilnir og blátt áfram og því kann einhverjum að finnast rússar vera dónalegir samanborið við eigin mannasiði. En svo er þó ekki, svona eru bara rússneskir mannasiðir. Þegar Rússar hittast er venjan að takast þétt í hendur og bjóða góðan dag (Dobry dien). Þegar vinir hittast spyrja þeir gjarnan ,,hvernig hefurðu það?” (Kak dela) en ólíkt t.d. Bretum og Bandaríkjamönnum ætlast þeir til að fá ítarlegt svar við spurningunni, annars væru þeir ekki að spyrja hennar. Rússum þykir gaman að fara í heimsókn og fá heimsóknir og að gefa gjafir við allskonar tækifæri er sterk hefð.
Hátíðir
Stærsta hátíðin í Rússlandi er nýársdagur (1. janúar). Á tímum Sovétríkjanna var bannað að halda upp á jólin (rússnesku jólin eru 7. janúar) svo að nýársfagnaðurinn varð stærri í sniðum. Þá skreyta flestir Rússar furutré og halda veislur. Afi Frost (rússneski jólasveinninn) sem býr lengst inn í skógi árið um kring og hugsar um trén og dýrin gengur um bæi og skilur eftir gjafir handa börnunum sem þau finna á nýársdag.
Þann 13. janúar er svo gamla nýárið, skv. júlíanska tímatalinu en sovéska ríkisstjórnin tók upp það Gregoríanska árið 1918. Rússar nota tækifærið og halda upp á sumar hátíðir tvisvar.
23. febrúar er dagur karla og 8. mars er dagur kvenna. Þá eiga karlarnir að sjá um öll heimilisstörf og konur mega bara slaka á.
9. maí (Victory Day) fagna Rússar uppgjöf þýsku nasistanna í seinni heimsstyrjöldinni. Gefið er frí bæði 8. og 9. maí.
12. júní er þjóðhátíðardagur Rússa en því eru þeir ekki búnir að venjast. Margir Rússar eyða deginum í sumarbústöðum sínum við að setja niður grænmeti.
1. september er Þekkingardagurinn – þá byrjar nýtt skólaár.
7. nóvember er Dagur októberbyltingarinnar (síðasti hluti Rússnesku byltingarinnar, 25. október skv. gamla tímatalinu).
12. desember 1993 var fyrsta rússneska stjórnarskráin samþykkt. Þessi dagur varð því nýlega almennur frídagur og engir sérstakir siðir tengjast honum.
Rússar elska að fagna og nýta sér flest tækifæri sem til þess gefast. Þeir hafa því tileinkað sér ýmsa vestræna siði, s.s. valentínusardag og hrekkjarvöku ásamt ýmsum hátíðsdögum úr trúarbrögðum annarra þjóða, s.s. múslima, gyðinga og kínverja. Rússar eru einmitt afar umburðarlyndir gagnvart öðrum trúarbrögðum.
Fjölmiðlar
Í Rússlandi eru ótalmörg dagblöð. Vinsælust eru æsifréttablöð eins og Komsomolskaya Pravda ☼www.kp.ru ☼
Moskovsky Komsomolets ☼www.mk.ru☼
Argumenty i Fakty ☼www.aif.ru☼
Meðal vandaðra dagblaða má hins vegar nefna blöðin
Vedomosti ☼www.vedomosti.ru☼
Kommersant ☼www.kommersant.ru☼
Izvestia ☼www.izvestia.ru☼
Til er ensk útgáfa af Kommersant á netinu: ☼http://www.kommersant.com☼
Auk þess eru nokkur blöð gefin út á ensku í Rússlandi, aðallega Moskvu. T.d. ☼http://www.moscowtimes.ru/☼
Í Rússlandi eru tvær meginsjónvarpsstöðvar í eigu ríkisins, ORT og RTR. Auk þess eru nokkrar sjónvarpsstöðvar með skemmtiefni, t.d. STS, TNT, Ren TV og Muz TV.
Hér eru tenglar á ótalmargar fréttasíður á rússnesku, bæði dagblöð, útvarp og sjónvarp:
☼http://www.media-ru.com☼
Tónlist og kvikmyndir
Vegna þess hve stórt og menningarlega
fjölbreytilegt Rússland er hefur tónlistin þar þróast
á marga ólíka vegu eftir svæðum.
Klassísk tónlist á sér langa sögu en frægasta
tónskáldið utan Rússlands er líklega Tchaikovsky .
Hann samdi m.a. tónlistina við Svanavatnið og
Hnotubrjótinn. Rachmaninoff kom fram stuttu á eftir
honum en hann var þekktastur fyrir snilldarlegan píanóleik
sinn. Á 20. öldinni var Igor Stravinsky líklega
áhrifamestur Hér er hægt að hlusta á
☼Dans sykurplómuálfanna úr Hnotubrjótinum☼ eftir
Tchaikovsky.
Og hér má hlusta á ☼Svanavatnið☼
Rússnesku söngvaskáldin
Á tímum Sovétríkjanna var tónlistarlífinu settar
miklar skorður. Á þeim tíma spruttu upp úr
grasrótinni söngvaskáld sem bjuggu til tónlist utan við
sovéska kerfið. Þessir söngvar voru meira í ætt við
ljóð sem sögðu oft sögur úr daglegu lífi í borgum
Rússlands. Ljóðin voru síðan sungin við einfaldar
gítarmelódíur. Margir þessara söngva voru pólitískir,
mjög húmorískir og tvíræðir. Söngvaskáldin héldu
tónleika fyrir litla hópa fólks, aleinir með gítarinn
sinn. Þeir gátu fæstir tekið upp tónlistina sína og
gefið hana út vegna þess hversu ögrandi hún gat verið
við sovésku stjórnina. Í staðinn var tónlist þeirra oft
tekin upp á fremur frumstæðan máta á tónleikum. Á
meðal þekktra söngvaskálda má nefna Bulat
Okudzhava, Alexander Galich, Vladimir Vysotsky og
Sergey Nikitin og Tatyana Nikitina (hjón sem sömdu
líka vinsæla söngva handa börnum).
Eftir hrun Sovétríkjanna varð vestræn rokk- og
popptónlist vinsælli meðal almennings. Margar
rússneskar hljómsveitir stigu fram, þ.á.m. DDT, Aria
and Alisa sem enn eru töluvert vinsælar. Þekktasta
popphljómsveit Rússa í dag er þó án efa t.A.T.u.
☼http://www.taty.ru/☼. Dima Bilan
☼http://www.bilandima.ru/☼ sigraði Söngvakeppni
evrópska sjónvarpsstöðva með laginu Believe árið
2008 og er núna gríðarlega vinsæll
popptónlistarmaður.
Líf barna ☼myndir☼ af börnum í Rússlandi.
Barnæskan er mikils metin í Rússlandi. Mörg börn eru í umsjá ömmu sinnar á meðan foreldrar þeirra vinna utan heimilis en ef engin amma er til staðar eru þau send í dagvistun og svo leikskóla. Flest rússnesk börn eru einbirni.
Barnalög frá Rússland: ☼http://www.mamalisa.com/world/russia.html☼ (hægt að hlusta á, skoða textann og nótur)
Sniðugt fyrir börn: ☼http://www.enchantedlearning.com/themes/russia.shtml☼
Myndir af Rússneskum leikvöllum: ☼http://www.englishrussia.com/?p=509☼
Skólar
Um 4/5 barna á aldrinum 3-6 ára eru í leikskóla. Skólaskylda hefst við 7 ára aldur og er í 8 ár. Meirihluti þjóðarinnar (60%) stundar nám í minnst 10 ár.
Nemendur koma snemma dags í skólann eða eru lengi fram eftir degi til að fá heimanámsaðstoð. Það eru mikil samskipti á milli kennara og foreldra.
Menntun er mikils metin í Rússlandi og ókeypis í opinberum skólum. Þar til nýlega gekk menntunin út á endurtekningar og utanaðbókarlærdóm og allir skólar kenndu sama námsefni. Nemendur voru ekki hvattir til að hugsa sjálfsætt, né efast um ágæti námsins. Frá 1994 var gefin út ný námskrá þar sem pólitískar áherslur eru ekki lengur til staðar og bækur sem áður voru á bannlista í skólum eru nú kenndar. Erfitt hefur reynst að koma á nýjum kennsluháttum vegna bágs efnahagsástands og af sömu ástæðu hafa orðið kennaraverkföll og stundum hefur þurft að loka skólum.
Hægt er að stunda nám í einkaskólum en það er mjög dýrt.
Mjög margir Rússar halda áfram í háskóla en það er þó keppst um plássin og þarf að þreyta inntökupróf til að komast inn.
Íþróttir
Rússar hafa lengi verið afar sigursælir á alþjóðlegum stórmótum í hinum ýmsu íþróttagreinum, ekki síst á Ólympíuleikunum. Rússneskir íþróttamenn hafa samanlagt unnið til 251 verðlauna (243 síðan 1994) á sumarólympíuleikum og 76 á vetrarólympíuleikum. Árið 2014 verða Vetrarólympíuleikarnir haldnir í Sochi í Rússlandi.
Fótbolti er líklega vinsælasta íþróttin eins og víða annars staðar í heiminum. Rússar eru með landslið í fótbolta sem var mjög sigursælt á árum áður, þá sem lið Sovétríkjanna. 1960 unnu þeir t.d. fyrstu Evrópumeistarakeppnina. Rússar eru líka með mjög góða úrvalsdeild, ☼http://www.rfpl.org/☼, sem stofnuð var árið 2001. Núverandi meistarar eru Zenit Saint Petersburg.
Íshokkí er önnur vinsælasta íþróttagreinin og eiga Rússar langa sögu af velgengi í þeirri íþrótt. Meira en 70 rússneskir hokkíleikmenn spila með NHL. Það er besta úrvalsdeild heims en hún er í Norður Ameríku. Aðrar vetraríþróttir eru líka mjög vinsælar, t.d. skíðaíþróttir og listskautahlaup .
Eftir að Boris Yelstín byrjaði að stunda tennis af kappi þegar hann var forseti (í byrjun tíunda áratugarins) varð það smám saman vinsæl íþróttagrein meðal almennings. Evgeniy Kafelnikov, Anna Kournikova of Maria Sharapova eru meðal frægustu tennisstjarna Rússlands. (myndir)
Margir Rússar flykkjast fyrir framan sjónvarpið til að fylgjast með Formúlu 1 kappakstrinum þó að þeir eigi kannski ekki sögu af miklum sigrum í þeirri grein.
Körfubolti er einnig vinsæl grein og á Rússinn Andrei Kirilenko marga aðdáendur en hann spilar með NBA deildinni.
Matargerð
Uppskriftir á : ☼íslensku☼ ☼rússnesku☼ ☼ensku☼
Rússar borða yfirleitt frekar heimaræktað grænmeti og ávexti en innflutt. Þeir sem hafa ekki mikinn pening milli handanna borða meira af brauði og kartöflum.
Borsch er afar vinsæl grænmetissúpa og líklega frægasti réttur Rússa. Pirozhki er skyndibiti, steikt eða bökuð rúlla sem hægt er að fylla með hinu og þessu. Golubtsy eru fyllt hvítkálsblöð, bökuð með tómatsósu og borðuð með sýrðum rjóma. Pelmeni er pastaréttur og shi er súrkálssúpa.
Vinsælasti áfengi drykkurinn í Rússlandi er vodki. Hann er drukkinn við nánast hvaða tilefni sem er. Rússar fara sjaldan út að borða vegna þess að það er mjög dýrt.
Veðurfar ☼veðrið í dag☼
Vegna stærðar landsins er loftslagið mjög breytilegt eftir svæðum. Þó ríkir yfirleitt meginlandsloftslag vegna fjarlægðar frá sjó sem þýðir að alveg gríðarlegur munur getur verið á hitastigi og veðráttu í kaldasta mánuðinum (janúar) og í heitasta mánuðinum (júlí). Veturinn er frá nóvember til mars en í Síberíu getur veturinn staðið yfir í allt að 9 mánuði og þar getur orðið alveg svakalega kalt. Víða í Síberíu er líka sífreri en það eru svæði með frost í jörðu allt árið um kring. Í borginni Verkhoyansk var eitt sinn mælt -98°frost sem er met í landinu. Sunnar hefur hitinn á sumrin hins vegar stundum farið upp í 38°.
Landslag ☼landslagsmyndir☼
Rússland er stærsta land í heiminum. Sléttur þekja stórt landsvæði en í norðri er að finna stórar, frosnar freðmýrar. Í vestri er stærsta skóglendissvæði heims. Það er þekkt sem ,,lungu Evrópu”, enda sér það um súrefnisframleiðslu ekki bara fyrir Evrópu heldur stóran hluta heimsins. Síbería er að mestu barrskógabelti, þó með freðmýrum í norðri og steppum í suðri (þurrt graslendi).
Úralfjöll skipta landinu milli Evrópu og Asíu. Þau eru lág en við suðurlandamærin er að finna hærri fjöll, Kákasusfjöll. Þar er fjallið Elbrus sem er hæsta fjall Evrópu (5,642 m). Lang, langt í austri er Kamtsjatka skagi en þar er að finna mörg virk eldfjöll.
Fjórar stærstu ár heims hlykkjast um rússneska grund, Lena, Ob, Volga og Yenisey. Ótal vötn er einnig að finna í Rússlandi, t.d. Bajkalvatn, Ladogavatn og Onegavatn.
Bajkalvatn
Bajkalvatn er þeirra frægasta vatn Rússlands, enda dýpsta og elsta stöðuvatn heims. Það er einnig stærsta ferskvatnsstöðuvatn heims og inniheldur hvorki meira né minna en 20% af öllu ferskvatni jarðar! Vatnið er í miðri Austur-Síberíu, umlukið fjallshryggjum. Í vatninu er afar fjölbreytt lífríki og um 60% tegunda í vatninu finnast eingöngu þar. En eina spendýrið sem lifir í vatninu er bajkalselurinn.
Landnýting og auðlindir
Í víðáttumiklu landinu er að finna mjög mikið af náttúruauðlindum. Þar er að finna bæði olíu og gas og mörg mikilvæg steinefni og auðvitað timbur. Þó skal hafa í huga að ýmsar náttúrulega hindranir setja úrvinnslu úr þessum auðlindum skorður. T.d. bara gríðarmiklar vegalengdir og óblítt veðurfar. Á stórum svæðum í Rússlandi er heldur ekki hægt að stunda landbúnað, það er ýmist of kalt eða of þurrt.
Dýralíf ☼myndir☼
Ógnir náttúrunnar
Sífrerinn (stöðugt frost í jörðu) í Síberíu setur ýmsar skorður við þróun á því svæði. Á Kurileyjum er mikil eldfjallavirkni
Atvinnulíf
Helstu atvinnuvegir í Rússlandi eru landbúnaður, námagröftur, orkuframleiðsla og véla-, efna-, timbur-, og vefnaðariðnaður.
Peningar
Gjaldmiðillinn í Rússlandi heitir Rúbla og er skammstafað RUR