Mikið álag fylgir því að flytja til annars lands. Hugtakið menningaráfall kom fyrst fram árið 1958 til að útskýra þá streitu sem oft fylgir því að flytja frá einu menningarsvæði til annars. Fólk veit ekki hvernig á að haga sér á nýjum stað og getur ekki nýtt fyrri þekkingu til að takast á við nýjar aðstæður.
Mikilvægt er að skilja eðli menningaráfalls svo hægt sé að bregðast skynsamlega við því.
Þegar menn flytja á milli landa má líkja þeim við fisk á þurru landi. Eins og fiskarnir hafa þeir synt í eigin menningu allt sitt líf. Fiskur veit ekki hvað vatn er. Á sama hátt hugsum við ekki svo mikið um þá menningu sem hefur mótað okkur. Þegar við lendum allt í einu í nýju og framandi umhverfi og menningu fer allt í uppnám.
Tilfinningauppnám við flutninga getur verið óbærilegt fyrir börn og sérstaklega unglinga. Börnin hitta mikið af nýju fólki og þurfa að læra nýjar venjur og nýtt tungumál. Þau hafa verið rifin burt frá frændfólki, afa og ömmu, vinum, leikfélögum og kennurum, fólki sem þau leita til í erfiðleikum og veitir þeim stuðning í lífinu.
Það getur verið erfitt og sársaukafullt að vera mállaus á framandi stað því tungumálið er lykill að öllu tjáskiptum.
Sársaukinn getur einnig stafað af vanmætti foreldra til að hjálpa barninu því þeir vita ekki heldur hvernig á að haga sér. Önnur atriði eru ekki eins augljós. Kunnugleg hljóð, útsýni, lykt og bragð eru ekki lengur til staðar.
Á öllum menningarsvæðum eru óskráðar reglur um samskipti fólks. Þær koma m.a. fram í líkamsmáli og raddbeitingu. Margir nemendur af erlendum uppruna verða ráðvilltir vegna þess sem kemur þeim fyrir sjónir sem agaleysi í íslenskum skólum. Barn sem hefur vanist heraga og formlegum samskiptum í skóla í heimalandinu getur brugðist við frjálsræði og óformlegum samskiptaháttum með taumlausri hegðun.
Búið er að taka frá þeim viðmiðunarmörk um hegðun og þau þurfa að leita sér að nýjum viðmiðum. Þau verða ráðvillt og óörugg við slíkar aðstæður.
Þess vegna er mikilvægt að upplýsa nemendur og foreldra um skólakerfið og samskiptahætti í skólanum.
Það er mikilvægt að skapa aðstæður sem auðvelda aðlögun. Erfiðar aðstæður auka enn álagið.
Kennarar þurfa að vera þolinmóðir og gefa sér tíma til að útskýra einföldustu hluti sem íslensk börn lærðu í byrjun skólagöngu. Ef til vill eru hugmyndir margra nemenda um námsleiðir þröngar, eða þær eru bara öðruvísi en okkar leiðir. Það tekur tíma að átta sig á náminu í skóla sem hefur allt önnur gildi og viðhorf en skólinn í gamla landinu.
Til dæmis:
– að maður afli þekkingar sjálfstætt.
– að hjálp fáist þegar beðið er um hana.
– að maður læri fyrir sjálfan sig til að efla eigin þroska og þekkingu.
Það óformlega frjálsræði sem ríkir í íslenskum skólum getur verið erfitt að höndla og sá þáttur sem er erfiðastur fyrir alla, bæði nemendur, foreldra og kennara. Ef samvinna næst ekki á milli fullorðinna og nemenda á þessu stigi getur það haft neikvæð áhrif á námið til lengri tíma.
Einfaldar venjur í íslenskum skólum geta einnig vafist fyrir fólki.
Sum börn skilja t.d. ekki hversvegna allir eru reknir út í frímínútum í hvaða veðri sem er eða hversvegna allir þurfa að fara úr skónum. Reyndar eru margar Asíuþjóðir vanar þeim sið.
Að fara í sturtu eftir íþróttir er séríslenskur siður og skapar oft mikinn vanda. Að fara í sturtu fyrir og eftir sund er engum vandkvæðum bundið. Öll börn sem koma í móttökudeildina og hafa ekki lært að synda eru áköf og dugleg við sundnámið.