Söguleg atriði
Á síðasta áratug 20. aldar hafa margar þjóðir og landsvæði tvístrast í þjóðarbrot, ættbálka og þjóðflokka. Þessari upplausn hefur fylgt öfgakennd grimmd einstaklinga og hópa gagnvart öðrum.
Mismunur í litarhætti, venjum, trú, uppruna og félagslegri stöðu hefur oft kveikt grimmd og ofbeldi gagnvart öðru fólki. Svona hefur þetta verið í sögu mannkyns og það heldur áfram að vera vandamál sem mannkynið þarf að takast á við. Öll menningarsvæði og allir þjóðernishópar eiga verðmæti sem þeir geta verið stoltir af. Flestar þjóðir bera þá byrði að hafa einhverntíma tekið þátt í illri meðferð eða þrælkun annarra.
Hjá öllum þjóðum, samfélögum, trúfélögum, þjóðernishópum, þjóðflokkum og ættbálkum viðgengst óréttlæti gagnvart þeim sem eru öðruvísi á einhvern hátt. Óréttlætið sem minnihlutahópar verða fyrir stafar fyrst og fremst af ótta og hatri sem aftur magnar ofbeldi.
Ef hópum finnst þeir á einhvern hátt vera kúgaðir eða niðurlægðir bregðast þeir oft harkalega við og níðast jafnvel á öðrum. Þetta munstur sést víða. Ef skólinn er t.d. of ósveigjanlegur og krefjandi gagnvart þeim sem á einhvern hátt eiga undir högg að sækja getur það kallað ýmist á heiftúðug viðbrögð eða depurð og hlédrægni.
Fjölmenningarstefna.
Tala innflytjenda hér á landi hefur tvöfaldast á sl. 5 árum og eru nú, árið 2002, 10 þúsund.
Við þurfum að bregðast við þessum nýju aðstæðum. Árið 2001 gaf Reykjavíkurborg út fjölmenningarstefnu sem nær til grunnskóla. Það er nauðsynlegt fyrir kennara og starfsfólk grunnskóla að skilja tilgang fjölmenningarlegrar kennslu. Hún stefnir einkum að því að breyta menntastofnunum og kennsluefni þannig að öllum nemendum séu veitt jöfn tækifæri til menntunar án tillits til fötlunar, félagslegra aðstæðna, kynferðis, kynþátta eða menningarlegra sérkenna.
Fjölmenningarleg kennsla veitir okkur tækifæri til að horfast í augu við þau vandamál sem við eigum sameiginleg og draga fram hið besta úr hverjum menningararfi.
Hvernig getum við brugðist við?
Hæfni til að láta í ljós virðingu og jákvæða tillitssemi gagnvart öðrum er mikilvægur þáttur í árangursríkum samskiptum á milli menningarheima. Nauðsynlegt er að temja sér umburðarlyndi, sveigjanleika og opið og jákvætt hugarfar gagnvart því sem er nýtt og sýna þeim skilning sem eru öðruvísi. Ýmsar skýringar á hegðun manna liggja ekki í augum uppi. Ekki má láta óæskilega hegðun viðgangast. Jafnframt þarf að gæta þess að mynda ekki fjandsamlega afstöðu og framkomu gagnvart þeim sem sýnir óvenjulega hegðun. Það er afspyrnu mikilvægt að við lærum umburðarlyndi og kennum það öðrum.
Takmörk eru fyrir menningarlegu umburðarlyndi. Þann lærdóm hefur 20. öldin kennt okkur aftur og aftur. Í mörgum menningarsamfélögum ríkir djúpstæð sannfæring sem við hörmum og finnst hræðilegt að sé til. Þetta eru t.d. hugmyndir um konur og líkama þeirra, um kynþætti, um börn, um yfirvöld og lögbrjóta, um hina sjúku, hina veikburða, hina fátæku og hina ríku.
Við þurfum á algildum hugmyndum að halda sem allir samþykkja. Í þeim þarf að felast viðurkenning á fjölbreytni mannlífs og menningar. Annars getur myndast hætta á óreiðu, fjandskap og átökum.
Við höfum færi á að þroska jákvæða afstöðu til einstaklingsbundinna eða sameiginlegra menningarverðmæta og koma á umburðarlyndi gagnvart öllum þeim sérkennum sem ekki eyðileggja manneskjur og samfélag þeirra.
Það tekur langan tíma að efla umburðarlyndi og skilning á mismun. Þegar við berjumst fyrir fjölmenningarlegum hugsunarhætti komumst við að því að til langs tíma litið er það árangursríkara að viðurkenna hugsunarhátt sem okkur finnst frábrugðinn því sem við erum vön. Í stað þess að hliðra sér hjá því að taka við nemendum með framandi sérkenni er farsælla að takast á við vandann. Það þroskar skilning okkar og gerir okkur hæfari til að taka við ólíkum nemendum.