Hugmyndin að Fjölmenningarvefnum varð til haustið 2000 þegar móttökudeildin í Breiðholtsskóla var opnuð. Vefurinn byggir á börnum sem flytja með foreldrum sínum víða að úr heiminum til að búa á Íslandi og hafa stundað nám í móttökudeildinni í Breiðholtsskóla. Þannig bætast við nýjar síður eftir því sem þjóðernum fjölgar.
Vefurinn auðveldar nemendunum að halda tengslum við gamla landið sitt, menningu og tungumál. Einnig miðla nemendur upplýsingum frá sínu menningarsvæði á vefinn.
Vefurinn er upplýsingaveita fyrir alla sem vinna með útlenskum börnum.
Til hægri eru vefsíður á ýmsum tungumálum með námsefni og fróðleik, þar er m.a. fjallað um menningaráfall á nokkrum tungumálum.
Til vinstri er löndum raðað inn eftir heimsálfum. Hvert land hefur heimasíðu. Innan hvers lands eru einkasvæði nemenda með myndum af heimaslóðunum sem þeir velja sjálfir. Þar er einnig síða sem heitir Fróðleikur, einskonar fréttasíða.
Á aðalsíðum allra landanna eru linkar á vefsíður dagblaða, útvarps og veðurfrétta, vefsíður um tísku, tónlist, listir, mataruppskriftir, íþróttir og dýralíf annaðhvort á viðkomandi þjóðtungu eða ensku.
Efni vefsins ætti að gagnast öllum sem hafa áhuga á öðrum þjóðum. Mikið er af myndum sem nýta má sem námsefni í íslenskukennslu. Mataruppskriftir frá ýmsum þjóðum eru kynntar á íslensku, ensku og mörgum öðrum tungumálum.
Fjölmenningarvefurinn er lifandi vefur í stöðugri þróun og tekur mið af reynsluheimi nemendanna sem koma í deildina.