Þann 29. desember árið 2006 fékk Fjölmenningarvefur barna viðurkenningu frá Alþjóðahúsinu. |
Í frétt Morgunblaðsins segir m.a.:
Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti séra Miyako Þórðarsyni, Önnu Guðrúnu Júlíusdóttur og Morgunblaðinu viðurkenningu Alþjóðahúss ,,Vel að verki staðið” fyrir lofsverða frammistöðu í málefnum innflytjenda á Íslandi við athöfn í Alþjóðahúsinu í dag.
Viðurkennningin, sem nú er veitt í fjórða skipti, þjónar þeim tilgangi að vekja athygli á jákvæðu starfi sem unnið er hér á landi í málefnum innflytjenda. Veittar voru viðurkenningar fyrir lofsverða frammistöðu í þremur flokkum; til einstaklings af íslensku bergi brotinn sem hefur lagt sitt af mörkum til innflytjenda á Íslandi, til einstaklings af erlendum uppruna sem hefur lagt sitt af mörkum til samfélagsins og til fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka fyrir framlag til málefna innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins, að því er segir á vef Alþjóðahússins.
Anna Guðrún Júlíusdóttir er kennari við Breiðholtsskóla í Reykjavík. Hún fær viðurkenningu Alþjóðahússins fyrir uppsetningu og vinnu við Fjölmenningarvef barna, sem var settur upp árið 2002. Síðan þá hefur Anna Guðrún unnið að stöðugu viðhaldi og endurbótum á vefsíðunni, ávallt í sínum frítíma, enda hefur vinna við vefinn ekki verið hluti af starfi hennar sem kennari, þó að efni vefsins sé tengt kennslunni. Þetta hefur því verið hugsjónastarf frá upphafi hjá Önnu Guðrúnu.
Hugmyndin að Fjölmenningarvef barna varð til haustið 2000 þegar móttökudeildin í Breiðholtsskóla var opnuð. Vefurinn byggir á börnum sem hafa flutt með foreldrum sínum til Íslands víða að úr heiminum og hafa stundað nám í móttökudeildinni í Breiðholtsskóla. Þau taka þátt í því að búa til síðu um sitt heimaland og þannig bætast við nýjar síður eftir því sem þjóðernum fjölgar.
Vinnan að vefnum er mikilvæg fyrir nemendur til að viðhalda tengslum við gamla landið sitt, menninguna og tungumálið. Hún gerir þau líka stolt af bakgrunni sínum og hjálpar þeim að finnast þau hafa eitthvað mikilvægt fram að færa í nýja samfélaginu. Á þann hátt nýtist vefurinn öllum börnum á Íslandi sem koma frá þessum löndum, kennurum og áhugafólki um barnamenningu víða um heim.
Auk upplýsinga um heimalönd barnanna úr Breiðholtsskóla má finna á síðunni efni sem nýtist í íslenskukennslu, mikið af vefslóðum á mörgum tungumálum sem nýtast í kennslu raungreina, meðal annars, bæði í skólanum og á heimilum. Þar eru tenglar á þýðingarvélar sem geta hjálpað börnum við nám og aðstoðað við samskipti kennara og nemenda. Auk þess eru tenglar á mikinn fjölda barnabóka á yfir hundrað tungumálum og fræðsluefni um menningaráfall á nokkrum tungumálum svo eitthvað sé nefnt. Á aðalsíðum allra landanna eru tenglar á vefsíður dagblaða, útvarps og veðurfrétta, vefsíður um tísku, tónlist, listir, mataruppskriftir, íþróttir og dýralíf annað hvort á viðkomandi þjóðtungu eða ensku.
Þann 16. febrúar 2003 fékk vefurinn Hvatningarverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur |
Í frétt Morgunblaðsins segir m.a.: Rökstuðningur dómnefndar fyrir viðurkenningu fjölmenningarvefsins var eftirfarandi: “Hér er um að ræða nýbreytni í nýbúakennslu en einnig samþættingu við kennslu í samfélagsgreinum og upplýsingatækni. Hér er um að ræða metnaðarfullt verkefni og frumkvöðulsstarf sem nýtist bæði í viðkomandi skóla og öðrum”.